<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 31, 2007

10-0 sigur! Ótrúlegur seinni hálfleikur.... 

Í kvöld spiluðum við á móti ÍR í landsbankadeildinni og gjörsigruðum þær á heimavelli 10-0. Aðstæður voru nokkuð erfiðar í byrjun leiks en það var grenjandi rigning á holóttum blautum vellinum. Við byrjuðum leikinn alls ekki nógu vel og spiluðum hreinlega illa í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir það náðum við að skora á 38.mínútu þegar Dóra María gaf á Margréti Lári sem var felld inní vítateig og umsvifalaust var dæmd vítaspyrna. Margrét Lára tók spyrnuna sjálf og skoraði örugglega. Einungis þremur mínútum síðar var Dóra María með boltann á miðjunni og lagði upp mark fyrir Margréti þegar hún átti stórkostlega sendingu yfir vörnina eftir að hafa tekið boltann á kassann og Margrét kláraði færið frábærlega með vinstri í vinstra hornið og staðan því orðin 2-0 eins og hún var í hálfleik. Beta tók tryllingin í hálfleik enda vorum við flestar að spila virkilega illa að kannski Dóru Maríu undanskildri. Seinni hálfleikur var síðan gjörsamlega allt annar, leikmenn greinilega vöknuðu eftir hálfleiksræðuna. Á 52. mínútu skoraði Vanja með skalla eftir að Margrét komst uppað endalínu og lagði boltann fyrir beint á kollinn á Vönju og staðan orðin 3-0. Margrét Lára skoraði síðan mark beint úr hornspyrnu frá hægri (með hægri) á 58.mínútu sem er hreint ótrúlegt hjá stelpunni! Uppúr þessu kom hreint ótrúlegur kafli hjá okkur en við skoruðum hvorki meira né minna en 5 mörk á tæplega 10.mín kafla! Á sömu mínútu (58.) gerði Beta fyrstu skiptinguna þegar hún tók Rakeli Loga útaf fyrir Guðný sem er öll að jafna sig eftir U19 törnina. Á 60.mínútu var brotið á Kötu innan teigs og vítaspyrna var dæmd. Vítaskyttan okkar Margrét Lára fór í annað sinn í leiknum á vítapunktinn og skoraði aftur örugglega. Guðný var ekki búin að vera lengi inná þegar hún náði að setja mark sitt á leikinn en hún skoraði tvö mörk á tveimur mínútum, það fyrra eftir sendingu frá Margréti og það seinna eftir undirbúning Vönju. Dóra María var næst til að komast á markalistann á 67.mínútu þegar hún skoraði úr teignum eftir stórglæsilega “kassa” sendingu frá Margréti og staðan því orðin 8-0 og enn rúmlega 20.mínútur eftir af leiknum. Á 72.mínútu komst Margrét í fínt færi og lyfti boltanum snyrtilega yfir Mist, markvörð ÍR-inga og skoraði þar með sitt fimmta mark. Margrét var ekki hætt því á 85.mínútu skoraði hún eftir stórskotahríð frá okkur á markið sem þær náðu að verjast á marklínu 3-4 sinnum en boltinn datt til hennar og setti hún hann pent í markið og tíunda og síðasta mark leiksins staðreynd!
Margrét skoraði 6 mörk í leiknum sem eru hreint ótrúlegar tölur, 2 víti, eitt beint úr horni og þrjú úr venjulegum leik! Ótrúlegt! Dóra María var hreint frábær í leiknum og var ein af fáum sem spilaði vel allan leikinn:) Vörnin spilaði virkilega vel í seinni hálfleik en þá náði ÍR ekki að skapa sér neitt opið færi og fór Pála þar fremst í flokki en hún átti virkilega góðan leik sem miðvörður í kvöld. Guðný átti frábæra innnkomu og skoraði nánast strax 2 mörk. Annars stóðu allir sig mjög vel í seinni hálfleik og erfitt að taka ákveðna leikmenn út. Frábær 10-0 sigur, tíu góð mörk og clean sheet, ekki hægt að fara fram á meira!
Liðið: Gugga, Pála, Fríða, Ásta(Linda 67.) Hallbera(Dagný 67.), Kata, Dóra María, Vanja, Rakel (Guðný 58.), Nína og Margrét Lára

sunnudagur, júlí 29, 2007

Valur - ÍR annað kvöld! 


Nú er lítil hvíld milli leikja og spilum við strax annan leik á morgun, mánudaginn 30.júlí kl. 19.15, á Valbjarnarvelli á móti ÍR. Þetta er fyrsti leikurinn í seinni umferð en mótið er akkurat hálfnað núna. ÍR er sem stendur í 7.sæti deildarinnar en við sigruðum þær 6-0 í fyrri umferð með mörkum frá Rakel, Vönju, Nínu og Margréti sem var með þrennu. Við viljum hvetja alla til að mæta á völlinn og styðja okkur til sigurs! ÁFRAM VALUR!!

laugardagur, júlí 28, 2007

Rey-cup úrslitakeppni 

Sælar dömur...
Rey-cup er núna í fullum gangi og gengur okkar stelpum virkilega vel. Mjög líklegt að þær séu að fara að spila um sæti á mótinu á morgun og er fyrsti leikur hjá 5.flokks skvísunum okkar, sem by the way spila upp fyrir sig, kl 9 í fyrramálið gegn einu af gesta liði mótsins sem koma frá Finnlandi.
Ekki er komið á hreint hvenar hinir leikirnir eru en hægt er að fara á www.reycup.is og athugað í fyrramálið með hvernar leikirnir eru.
Vil ég hvetja ALLAR til að mæta og sína stelpunum okkar stuðning því þær munu meta það virkilega mikið.
Be there or be a square!

Your beloved Sifilissious!;)

5-0 frábær sigur í kvöld í góðri ferð til Akureyrar.. 

Í kvöld skelltum við okkur til heimabæjar Ástu Árna, Akureyrar (bærinn þar sem Ásta bókstaflega þekkir alla) og spiluðum á frábærum Akureyrarvelli en völlurinn var bara "teppi" eins og maður segir á fótboltamáli. Mikil stemning var í hópnum sem náði hámarki þegar Dóra María flaug á hausinn þegar leikmenn voru að ganga inná völlinn í upphafi leiks. Þegar leikurinn byrjaði síðan vorum við gríðarlega einbeittar og áttum leikinn frá upphafi til enda. Fyrstu mínúturnar voru algjörlega okkar þó við næðum ekki að skora strax en Þór/KA getur þakkað góðum markverði sínum sem hélt þeim lengi vel inni í leiknum. Fyrsta mark leiksins kom á 28.mínútu þegar brotið var á okkur á miðjunni, Margrét var fljót að átta sig og átti frábæra sendingu inní teiginn þar sem Katrín Jónsdóttir fyrirliði stangaði boltann inn og staðan orðin 1-0. Virkilega flott mark. Annað mark leiksins kom eftir hornspyrnu, aftur var það eftir góða spyrnu Margrétar sem Kata kláraði af miklu harðfylgi á 40.mínútu. Staðan var 2-0 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja. Það var aðeins annar andi í klefanum í þessum hálfleik en í síðasta leik sem við spiluðum enda vorum við að spila hreint frábærlega á köflum og náðum að gegnumspila þéttskipaða vörn Þórs/KA. Við byrjuðum seinni hálfleik að sama krafti og skoruðum þriðja mark leiksins strax á 48.mínútu og var það einkar vel að verki staðið.
Dóra María og Margrét léku þríhyrninga upp völlinn út að endalínu og Dóra renndi honum út á Margréti sem kláraði færið mjög vel og staðan orðin 3-0 og leikurinn algjörlega í okkar höndum.
Á 59.mínútu gerði Beta tvöfalda skiptingu þegar hún tók Sif og Thelmu útaf fyrir Rakeli Loga og Lindu Rós en þær áttu báðar mjög góðar innkomur.
Fjórða mark leiksins kom eftir virkilega gott spil hjá okkur á 64.mínútu.
Fríða átti frábæra sendingu yfir vörnina á Vönju sem komst framhjá bakverðinum og lagði hann fyrir markið á Margréti sem kláraði færið örugglega. Við héldum áfram að spila vel og skapa okkur mörg færi sem við hefðum þó getað nýtt betur en það sem er virkilega jákvætt er að við náðum upp frábæru miðjuspili og mjög fáar langar sendingar og háloftaspyrnur litu dagsins ljós.
Á 77.mínútu var Vanja tekin útaf fyrir Báru sem kom inn af mikilli grimmd og vann ótrúlega mikið af boltum með ákveðni sinni.
Nína Ósk skoraði síðan síðasta mark okkar á lokamínútunum eftir mikið harðfylgi í teignum og lokatölur urðu því 5-0 eftir frábæran leik.
Kata var frábær í leiknum og fór fyrir liðinu eins og sönnum fyrirliða sæmir. Síðan má eiginlega segja að allir leikmenn liðsins hafi verið “vel inní leiknum” og kannski klisja að segja að allir hafi staðið sig mjög vel en þannig var það nú samt:) Margrét skoraði tvö góð mörk auk þess sem hún lagði upp mörk og skapaði færi fyrir félaga sína. Dóra María var arkitektinn af ófáum uppspilum sem enduðu yfirleitt alltaf með góðu færi eða marki. Vörnin steig varla feilspor en Þór/KA skapaði sér nánast engin opin marktækifæri. Thelma Björk byrjaði inná í sínum fyrsta leik á Íslandsmóti og stóð sig með sóma.
Liðið í kvöld: Gugga, Ásta, Fríða, Hallbera, Sif (Linda 59.) Thelma (Rakel 59.), Kata, Dóra María, Vanja (Bára 77.), Nína og Margrét.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Deildin af stað á ný og leikur á morgun!! 

Núna fer deildin af stað á ný eftir langa pásu en í gær mætti hópurinn allur saman í fyrsta skipti í langan tíma. Á morgun, föstudaginn 27.júlí, eigum við leik við Þór/KA á Akureyri og fer hann fram á Akureyravelli kl. 19.15. Þetta er síðasti leikur okkar í fyrri umferð og mótið er því semsagt rétt að hálfna. Þar sem leikurinn er á Akureyri ætlum við ekki beint að hvetja alla til að mæta á völlinn en þið verðið bara að bíða heima og vona það besta, ÁFRAM VALUR! (p.s stelpur það er mæting kl. 15.15 uppá flugvöll fyrir þær sem ekki vita!)
p.s þess vegna er skylda að mæta í staðinn á næsta heimaleik;)

Aðrir leikir sem fara fram í deildinni á sama tíma eru: Stjarnan - ÍR, KR - Keflavík og Fylkir - Breiðablik.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

M.L.V aka B.K.Í 

hó hó hó!

jæja góðir hálsar, ungfrú gróf ritar,SÆLIR!


25.júlí er dagurinn, dagurinn sem að Margrét Lára skaust úr móðurkviði og beint á fótboltavöllinn, það má með sanni segja að það hafi skilað sér því eins og alþjóð veit er Margrét Lára besta knattspyrnukona Íslands, húrra húrra húrra!!




Margrét er þó með mörg járn í eldinum, ber þar helst að nefna steinakast, hunangsgerð og títt nefnda leiklistarhæfileika stúlkunnar en hún hyggst til Bollywood að knattspyrnuferli loknum!





Marco!! TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ, haltu áfram að vera B.E.S.T




L.O.V.E
stelpurnar í PUMA peysunum sem að dýrka Betu

þriðjudagur, júlí 24, 2007

D.M.L aka F.K.Í 



jæja jæja! afmælisbörnin hafa ekki fengið að njóta sín undanfarið en undirrituð brann út í þessum pistlum í MAÍ :) (mer kvíður fyrir maí 2008 :( )

En nú er 24.JÚLÍ gengin í garð og á þessum degi fyrir 22 árum fæddist fallegasta knattspyrnukona Íslands, Dóra María Lárusdóttir.



Dóra María hefur alla tíð borið af meðal kynsystra sinni í þokka, fegurð og skeiði.
Stelpunni hefur oft verið líkt við sambakóngana en Dóra á það til að sýna snilldarlega takta á vellinum, Dóra er einnig þekkt fyrir góðan tónlistarsmekk, stundvísi og að hafa óbeit á sólargeislum!

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ FALLEGA DÝRIÐ ÞITT og endilega haltu áfram að vera SÆT :) :)


L.O.V.E VALSSTELPU BETU-LOVERS!




föstudagur, júlí 20, 2007

Fréttir liðinna daga... 

U19 reið ekki feitum hesti á miðvikudag þegar þær töpuðu 5-0 fyrir Noregi en lokatölur leiksins sýna þó engan vegin rétta mynd af leiknum. Linda spilaði allan leikinn auk þess sem Guðný byrjaði einnig inná en hún var tekin útaf í seinni hálfleik vegna meiðsla. 19 ára landsliðið á einnig leik í kvöld við frændur okkar Dani og verður sá leikur á Kópavogsvelli klukkan 19.15 í kvöld og hvet ég alla til að mæta á völlinn og styðja Ísland til sigurs.
ÁFRAM ÍSLAND!
Við Valsstúlkur spiluðum síðan æfingaleik við Aftureldingu á heimavelli Aftureldingar í Mosfellsbæ í gærkvöldi, (Guðný sorry að þú misstir af þessu) en sá leikur endaði 4-1. Mikið var um rótteringar á liðinu enda æfingaleikur og sást kannski aðeins á liðinu að það hafi verið á morgunæfingu sama dag.
Hópurinn: Mjöll, Ásta, Sif, Hallbera, Pála, Kata, Dagný, Vanja, Dóra María, Fríða, Margrét, Bára, Nína, Andrea og Thelma. Nú er tveggja daga frí fyrir þá sem vilja og síðan eru 2x æfingar á sunnudag þannig allir ættu að vera orðnir ferskir þá!

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Heyrst hefur.... 

Nú er orðið alltof langt síðan slúðrið hefur fengið að fljóta um æðar okkar en hérna er brot af því helsta...
Heyrst hefur.....
Að Kata hafi lent í hremmingum í miðbænum um helgina,
Að Berry hafi verið að skemmta sér með familíunni en áttaði sig á því þegar langt var liðið á kvöldið að hún var að skemmta sér með StjörnuliðinuJ
Að Margrét Lára eigi tvífara í enska landsliðinu...
Að Dóra María hafi verið krýnd fegurðardrottning fótboltans við hátíðlega athöfn.
Að Guðný sé með listaverk á kálfanum eftir sjúkraþjálfara U19
Að Anna G. og Orri séu að stinga saman nefjum en stúlkan þykir einstaklega áhugasöm um sporthús-strakana.
Að Vanja sé í rauðum og grænum peysum til skiptis
Að stórir rauðir kassar séu á öllum keppnistreyjunum okkar, sama þótt að treyjan sé ekki rauð, sami stimpill á allar treyjur takk fyrir!
Að það þurfi að vökva grasið..
Og þrífa klefann...
Að Ása hafi verið að eignast nýjan pick-up trukk..
Að Beta ætli að fá sér gjallarhorn til að öskra á okkur á æfingum..
Að Rakel Loga sé orðin ofvirkur einkaþjálfari..
Að Re-bounderinn sé kominn uppá gras og sé að gera góða hluti.
Að við spilum á einhverjum Vodafone sparkvelli næsta ár?
Að Margrét Lára hafi brotið á Aliciu í KR leiknum þegar við vildum fá víti..
Að Beta sé heppin að vera ekki látin fjúka eins og Kalli Stjörnuþjálfari eftir tapið í bikarnum..
Að það vanti brúna tígla í nammipokann í leikjum...(og líka lakkrísbombur)
Að það hafi górillur mætt í afmælið til Kötu..
Að það séu að myndast ástarsambönd innan kvennaráðsins..
Að það sé erfitt að bera fram nafnið “Bentína”
Að æfingagrasið sé holóttara en Valbjarnarvöllur
Að betra liðið sigri ekki alltaf..
Að LaserTag sé nýjasta æðið..
Að það sé komin tími á að Fríða haldi innflutningspartý
Að það sé að koma þreföld afmælisveisla...SA,DML,MLV..
Að það sé aftur komið undirbúningstímabil..

Síðan er auðvitað margt fleira sem má endilega bæta við í kommentakerfinu...

mánudagur, júlí 16, 2007

Langt í næsta leik, "semi" undirbúningstímabil í gang! 

Þjálfarar okkar sitja ekki auðum höndum þótt að langt sé í næsta leik vegna U19-mótsins. Nú verða óhefðbundnar morgun- og kvöldæfingar og liggur grunur á að teygjurnar séu mættar á svæðið auk þess sem boltarnir verða væntanlega geymdir til hliðar á morgnanna....
Ása, Anna G.,Guðný og Linda verða síðan allar í eldlínunni en fyrsti leikur okkar Íslendinga í U19 verður á miðvikudaginn kl. 19.15 við Noreg á Laugardalsvelli og ætlum við að sjálfsögðu allar að mæta á leikinn og hvetja Ísland til sigurs.
Sif Atladóttir, a.k.a Sirkus-gellan, varð 22 ára í gær við hátíðlegan söng á æfingu í gær. Við viljum að sjálfsögðu enn og aftur skila innilegum hamingjuóskum með afmælið til hennar.

föstudagur, júlí 13, 2007

2-1 tap, sorgleg frammistaða í fyrri hálfleik. 

Í kvöld mættum við Breiðabliki á Kópavogsvelli í 8 liða úrslitum VISA bikarsins og lutum þar í lægra haldi fyrir heimastúlkum sem kláruðu okkur í fyrri hálfleik. Það má segja að við hreinlega byrjuðum ekki leikinn fyr en á cirka 48.mínútu eða þegar seinni hálfleikur var rétt byrjaður. Þrátt fyrir skítaframmistöðu í fyrrihálfleik þá hefðum við samt getað skorað því við fengum tækifæri til þess. En það voru blikarnir sem skoruðu 2 góð mörk, það fyrra var skot frá Gretu Mjöll upp í hornið fjær og hið síðara var mark frá Söndru Sif sem lagði hann í hornið eftir að hún komst í gegnum vörnina. Frammistaðan í fyrri hálfleik er ein sú versta sem leikmenn hafa sýnt í fjölmörg ár, það verður bara að viðurkennast því miður. Tilfinniningin inná vellinum var meira eins og á léttri æfingu eftir leik en alls ekki eins og hún á að vera í leik að stærðargráðu eins og þessum.
Góð hálfleiksræða var tekin á okkur í leikhléi sem náði heldur betur að vekja okkur til lífsins en gjörsamlega allt annað lið mætti á völlinn í seinni hálfleik. Nína var tekin útaf fyrir Hallberu sem fór í vinstri bakvörð, Kata fór á miðjuna og Sif í hægri bakvörð. Við byrjuðum seinni hálfleikinn með hápressu og sköpuðum okkur virkilega mörg marktækifæri og er hreint ótrúlegt að við skyldum ekki ná að nýta eitt einasta þeirra. Á mjög löngum köflum voru blikarnir ekki einu sinni nálægt því að komast yfir miðju en þær spiluðu agað í vörninni og héldu markinu hreinu. Bakvörður blika braut síðan á Guðný þegar hún sparkaði í hana innan teigs og umsvifalaust dæmd vítaspyrna. Margrét tók spyrnuna og minnkaði muninn í 2-1 þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum. Síðustu mínútur leiksins voru virkilega fjörugar, fjölmörg færi eins og áður í leiknum en inn fór boltinn ekki.
Svona heilt yfir er gríðarlega svekkjandi að hafa ekki náð að jafna en það er ekki hægt að segja “heppni eða óheppni” blikarnir skoruðu einfaldlega 2 mörk og við 1 og það er það sem telur í leikslok. Hálfleikarnir voru svart og hvítt þar sem við hreinlega byrjuðum ekki leikinn fyr en eftir hálfleiksræðu. Það er síðan virkilega svekkjandi að hugsa til þess að við hefðum klárlega unnið þennan leik ef við hefðum bara byrjað leikinn frá fyrstu mínútu. Liðinu sem langaði meira að vinna leikinn sigraði, svo einfalt er það. Dómararnir voru frábærir í þessum leik og langt síðan jafngóður dómari eins og þessi hefur dæmt hjá okkur.
Nú er bara að girða upp um sig buxurnar og horfa fram á veginn þar sem við erum í bullandi séns á Íslandsmótinu auk þess sem hin skemmtilega Evrópukeppni nálgast en bikarkeppnin er því miður búin í ár.
Liðið: Gugga(46.),Ásta(46.), Pála(46.), Kata(46.), Sif(46.), Guðný(46.),Vanja(46.)Fríða(46.)(Andrea 70.), Dóra María(46.)(Hallbera(46.)) og Margrét Lára(46.)

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Breiðablik - Valur í kvöld!! 

Í kvöld spilum við í 8.liða úrslitum VISA-bikars kvenna og förum í heimsókn í Kópavoginn þar sem við mætum Breiðabliki klukkan 20.00. Eins og flestir vita sigruðum við Breiðablik eftirminnilega í bikarúslitaleiknum í fyrra í vítakeppni eftir að leikurinn endaði 3-3 í framlengingu. Við viljum hvetja ALLA til að mæta á leikinn í kvöld og styðja okkur til sigurs í þessum stórleik þar sem við höfum titil að verja í þessari keppni!!

Fleiri leikir sem fara fram í VISA bikarnum á sama tíma eru: Þór/KA - KR, Stjarnan - Fjölnir og Afturelding - Keflavík. Hér er mótið í heild: http://ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=14266
ÁFRAM VALUR!!!!!


laugardagur, júlí 07, 2007

1-1 í miklum baráttuleik í kvöld! 


Fyrir leikinn vorum við jafnar að KR á stigum og var því fyrirfram talað um þetta sem einn af “úrslitaleikjum” sumarsins og mátti því búast við virkilega spennandi viðureign tveggja góðra liða. KR-ingarnir byrjuðu leikinn betur en við og fengu dauðafæri strax á fyrstu mínútu sem var varið. KR stúlkur komust síðan yfir á 14.mínútu og var þar af verki Hrefna Jóhannsdóttir sem þrumaði boltanum í markið eftir mikinn klaufagang hjá okkur en við höfðum þónokkur tækifæri til að koma boltanum í burtu og staðan því orðin 1-0 fyrir KR. KR-ingar efldust enn frekar við þetta en smátt og smátt náðum við að komast betur inní leikinn. Við sköpuðum okkur eitt algjört dauðafæri þegar Margrét skaut yfir af markteig eftir sendingu frá Dóru Maríu. Um miðjan fyrri hálfleikinn vildum við fá vítaspyrnu þar sem Alicia leikmaður KR braut illa á Margréti og er eiginlega ótrúlegt að vítaspyrna hafi ekki verið dæmd. Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik var mikil barátta milli liðana og bæði lið fengu svosem færi til að skora en hvorugu liði tókst það og staðan því 1-0 fyrir KR í hálfleik. Við gerðum eina breytingu í hálfleik en Pála sem var á gulu spjaldi fór útaf fyrir Nínu sem náði að hressa vel uppá okkar leik. Við komum mun ákveðnari til seinni hálfleiks en KR fékk samt fínt færi efir hornspyrnu sem fríða varði á marklínu. Við byrjuðum að vinna miklu fleiri skallabolta og návígi en KR ingar höfðu klárlega yfirhöndina í því í fyrri hálfleik. Við sóttum nokkuð stíft á KR ingana en vorum alltof oft veiddar í rangstöðugildruna og ávallt flaggaði línuvörðurinn. Á 56. mínútu kom Hallbera inná fyrir Rakeli sem er búin að vera meidd undanfarið. Á 61.mínútu fengum við síðan hornspyrnu sem Dóra María tók stutt á Margréti Láru sem gerði sér lítið fyrir og þrumaði á nærstöngina og skoraði gríðarlega mikilvægt mark. Eftir þetta var leikurinn í járnum allt fram til loka og má segja að bæði lið hefðu auðveldlega getið stolið sigrinum. Við fengum þó mun opnari færi og komst Dóra María í eitt slíkt rétt fyrir leikslok, komst alein í gegn en lét verja frá sér í horn. Umdeilt atvik gerðist síðan í uppbótartíma leiksins en Dóra María komst aftur ein í gegn og var klippt niður af markverði KR inga sem fékk aðeins að lýta gula spjaldið, en samkvæmt reglum á þetta að vera rautt spjald. Margrét tók spyrnuna beint í veginn sem var komin ansi langt á móti spyrnunni. Við fengum því að taka spyrnuna aftur og í þetta sinn skaut Vanja í vegginn. Eftir það flautaði dómarinn til leiksloka og niðurstaðan 1-1. Svona heilt yfir má segja að jafntefli sé sanngjörn niðurstaða þó að við séum sársvekktar að hafa ekki klárað leikinn því við fengum klárlega færi til þess. Eftir leikinn erum við því með 19 stig, eins og KR en erum á toppnum vegna aðeins betri markatölu. Það er erfitt að taka leikmann úr okkar liði sem stóð uppúr, Guðný skilaði sínu ágætlega, og Nína hressti uppá liðið með sinni innkomu. Vörnin átti því miður ekki alveg nógu góðan dag og sóknarlínan var alltof oft dæmd rangstæð. Við fórum í smá “kick and run” leik og hefðum mátt vera aðeins rólegri á boltann og köttuðum miðjuna svolítið útur leiknum á tíma. Í KR var Katrín Ómars best, auk þess sem Olga, Alicia og Íris markvörður KR inga stóðu sig vel.

Liðið: Gugga, Ásta, Guðný, Fríða, Pála (Nína 46.) Sif, Rakel (Hallbera 56.) Vanja, Kata, Dóra María og Margrét


fimmtudagur, júlí 05, 2007

Valur - KR á morgun!!! 


Á morgun, föstudaginn 6.júlí fer fram stórleikur á milli Vals og KR á Valbjarnarvelli klukkan 19.15. KR er eins og við á toppnum og hefur sigrað alla sína leiki til þessa og er því ekki hægt að búast við neinu nema hörkuleik annað kvöld. Við viljum hvetja alla til að koma á leikinn og sjá þennan stórleik og styðja okkur til sigurs!! Á sama tíma og okkar leikur fer fram er einnig Keflavík - Fylkir. Hér er mótið í heild sinni: http://ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=14844

ÁFRAM VALUR!!!

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Á morgun kemur nýr dagur 




.......... og þá er eins gott að vera með fókusinn í lagi fyrir næsta verkefni :)

Gott frí í dag hefur vonandi nýst vel í að tana og hlaða orku ............


En........ á morgun æfum við frá kl Átjánhundruð til kl. ca nítjánhundruðogfimmtán og verður æfingin í sérlega léttum dúr.




Að lokinni æfingu er leikmönnum sem hafa góðan tíma og vilja eyða honum
í faðmi "fjölskyldunnar" þá er þeim boðið í heita pottinn og grillaðan kjúkling
að hætti hússins í sveitinni .. Hér skal tekið fram að aðeins er um valmöguleika að ræða
sem enginn er skyldugur að taka þátt í :)



+
Hins vegar bíður kvennráðið til matarveislu fyrir eftir æfinguna á fimmtudag og þá er að sjálfsögðu skyldumæting á hópinn enda fundur fyrir leik á föstudag tekinn á þeirri samkomu :)


Sjáumst á morgun í 18.5 stiga hita 15.daginn í röð á Íslandi



3-1 á Fylkisvelli þar sem gjallarhornið fór hamförum 

Leikurinn fór fram í blíðskaparviðri í Árbænum í kvöld og við byrjuðum strax af miklum krafti. Strax á 2.mínútu skoraði Dóra María stórglæsilegt mark eftir sendingu frá Sif frá hægri og staðan strax orðin 1-0. Fyrstu 10-15 mínútur leiksins voru mjög fínar af okkar hálfu en smátt og smátt náði Fylkir koma sér betur inní leikinn. Við náðum samt að skapa okkur fullt af færum sem við eigum hreinlega að nýta betur en það tókst ekki og staðan því 1-0 í frekar bragðdaufum hálfleik. Fram að þessu hafði Fylkir sýnt fyrirmyndarbaráttu inná vellinum og ætluðu sér greinilega að komast frá þessu leik með stig. Í byrjun seinni hálfleiks misstum við boltann á klaufalegan hátt á miðjunni sem Fylkir nýtti sér vel, þær keyrðu á vörnina áttu fínt skot á markið sem var varið og Anna Björg var fyrst að átta sig og fylgdi vel á eftir og staðan því orðin 1-1. Núna fóru ótrúlegir hlutir í gang. Dómarinn var frábær í kvöld og stal einfaldlega senuninni oft á köflum sérstaklega þegar hann hunsaði hvað eftir annað ákvarðanir aðstoðarmanna sinna. "já mér fannst þetta virka" er dáldið góð setning eftir daginn. Á 59. mínútu skoraði Vanja eftir góðan undirbúning frá Margréti og kom okkur aftur yfir í 2-1 og má segja að við værum með leikinn í hendi okkar, enda vorum við alltaf mun líklegri til að bæta við en þær til að minnka muninn. Nína og Hallbera fóru síðan útaf fyrir Thelmu og Lindu á 56.mínútu. Nýr "vallarþulur" tók til máls og sagði nokkur vel valin orð út síðari hálfleikinn, heppinn að ekki var eftirlitsmaður á vellinum sem hefði án efa gert athugasemd í skýrslu sína. Barátta Fylkis var fín á vellinum hjá þeim og þær eiga hrós skilið fyrir það. Þriðja og síðasta mark leiksins skoraði síðan Vanja á 80.mínútu aftur eftir undirbúning Margrétar og var það mark mjög svipað marki nr. 2. Frábært hvernig Vanja og Margrét unnu saman að þessum tveim mörkum og stóðu af sér mótlætið.
Á 84.mínútu meiddist Sif eftir mjög harkalega tæklingu, hún var borin af velli, dómarinn dæmdi ekkert okkur til furðu en svona er fótboltinn vonandi eru meiðsli hennar ekki eins alvarlega og þau litu út fyrir að vera. En leikurinn endaði 3-1 fyrir okkur og frábært að fá 3 stig þrátt fyrir frekar dapra frammistöðu hjá okkur í kvöld. Guðný átti reyndar fínan leik og ekki hægt að kvarta yfir hennar frammistöðu en flest allar aðrar voru að spila undir getu. Mikilvægur sigur í höfn og þrjú góð mörk skoruð og við erum því ennþá í efsta sæti deildarinnar ásamt KR.
Liðið: Gugga, Ásta, Kata, Pála, Sif (Bára), Hallbera (Linda), Guðný, Vanja, Dóra María, Nína (Thelma) og Margrét

Trallala skoðið svo endilega skemmtilegu kommentin sem áhugafólk um valurwoman setja hér að neðan :)

mánudagur, júlí 02, 2007

6 í liði umferðar 1-6, Margrét best og Beta besti þjálfarinn! 

Viðurkenningar fyrir umferðir 1-6 í Landsbankadeild karla voru afhentar í hádeginu í dag, mánudag, í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal. Valið var lið umferða 1- 6 ásamt þjálfara umferðann. Einng voru veitt stuðningsmannaverðlaun

Lið umferða 1-6:

Markvörður:
Guðbjörg Gunnarsdóttir – Valur

Varnarmenn:
Guðný Óðinsdóttir - Valur
Embla Grétarsdóttir - KR
Ásta Árnadóttir - Valur
Katrín Jónsdótir - Valur

Tengiliðir:
Edda Garðarsdóttir - KR
Katrín Ómarsdóttir - KR
Dóra María Lárusdóttir - Valur
Guðný Petrína Þórðardóttir - Keflavík

Framherjar:
Margrét Lára Viðarsdóttir - Valur
Anna Björg Björnsdóttir - Fylkir

Þjálfari umferða 1 – 6:
Elísabet Gunnarsdóttir- Valur

Stuðningsmannaverðlaun umferða 1 – 6:
Stuðningsmenn Fylkis.


Til hamingju með þetta sem voru valdar!:)


sunnudagur, júlí 01, 2007

Fylkir - Valur annað kvöld!! 


Næsti leikur okkar í Landsbankadeild kvenna er á móti Fylki í Árbænum og hefst hann á morgun, mánudaginn 2.júlí kl. 19.15 og fer fram á Fylkisvelli. Fylkir er sem stendur í 7.sæti deildarinnar og hefur að skipa ungu og efnilegu liði. Við viljum hvetja alla til að mæta á völlinn og styðja okkur til sigurs í þessum leik! ÁFRAM VALUR!!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow