<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 07, 2007

1-1 í miklum baráttuleik í kvöld! 


Fyrir leikinn vorum við jafnar að KR á stigum og var því fyrirfram talað um þetta sem einn af “úrslitaleikjum” sumarsins og mátti því búast við virkilega spennandi viðureign tveggja góðra liða. KR-ingarnir byrjuðu leikinn betur en við og fengu dauðafæri strax á fyrstu mínútu sem var varið. KR stúlkur komust síðan yfir á 14.mínútu og var þar af verki Hrefna Jóhannsdóttir sem þrumaði boltanum í markið eftir mikinn klaufagang hjá okkur en við höfðum þónokkur tækifæri til að koma boltanum í burtu og staðan því orðin 1-0 fyrir KR. KR-ingar efldust enn frekar við þetta en smátt og smátt náðum við að komast betur inní leikinn. Við sköpuðum okkur eitt algjört dauðafæri þegar Margrét skaut yfir af markteig eftir sendingu frá Dóru Maríu. Um miðjan fyrri hálfleikinn vildum við fá vítaspyrnu þar sem Alicia leikmaður KR braut illa á Margréti og er eiginlega ótrúlegt að vítaspyrna hafi ekki verið dæmd. Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik var mikil barátta milli liðana og bæði lið fengu svosem færi til að skora en hvorugu liði tókst það og staðan því 1-0 fyrir KR í hálfleik. Við gerðum eina breytingu í hálfleik en Pála sem var á gulu spjaldi fór útaf fyrir Nínu sem náði að hressa vel uppá okkar leik. Við komum mun ákveðnari til seinni hálfleiks en KR fékk samt fínt færi efir hornspyrnu sem fríða varði á marklínu. Við byrjuðum að vinna miklu fleiri skallabolta og návígi en KR ingar höfðu klárlega yfirhöndina í því í fyrri hálfleik. Við sóttum nokkuð stíft á KR ingana en vorum alltof oft veiddar í rangstöðugildruna og ávallt flaggaði línuvörðurinn. Á 56. mínútu kom Hallbera inná fyrir Rakeli sem er búin að vera meidd undanfarið. Á 61.mínútu fengum við síðan hornspyrnu sem Dóra María tók stutt á Margréti Láru sem gerði sér lítið fyrir og þrumaði á nærstöngina og skoraði gríðarlega mikilvægt mark. Eftir þetta var leikurinn í járnum allt fram til loka og má segja að bæði lið hefðu auðveldlega getið stolið sigrinum. Við fengum þó mun opnari færi og komst Dóra María í eitt slíkt rétt fyrir leikslok, komst alein í gegn en lét verja frá sér í horn. Umdeilt atvik gerðist síðan í uppbótartíma leiksins en Dóra María komst aftur ein í gegn og var klippt niður af markverði KR inga sem fékk aðeins að lýta gula spjaldið, en samkvæmt reglum á þetta að vera rautt spjald. Margrét tók spyrnuna beint í veginn sem var komin ansi langt á móti spyrnunni. Við fengum því að taka spyrnuna aftur og í þetta sinn skaut Vanja í vegginn. Eftir það flautaði dómarinn til leiksloka og niðurstaðan 1-1. Svona heilt yfir má segja að jafntefli sé sanngjörn niðurstaða þó að við séum sársvekktar að hafa ekki klárað leikinn því við fengum klárlega færi til þess. Eftir leikinn erum við því með 19 stig, eins og KR en erum á toppnum vegna aðeins betri markatölu. Það er erfitt að taka leikmann úr okkar liði sem stóð uppúr, Guðný skilaði sínu ágætlega, og Nína hressti uppá liðið með sinni innkomu. Vörnin átti því miður ekki alveg nógu góðan dag og sóknarlínan var alltof oft dæmd rangstæð. Við fórum í smá “kick and run” leik og hefðum mátt vera aðeins rólegri á boltann og köttuðum miðjuna svolítið útur leiknum á tíma. Í KR var Katrín Ómars best, auk þess sem Olga, Alicia og Íris markvörður KR inga stóðu sig vel.

Liðið: Gugga, Ásta, Guðný, Fríða, Pála (Nína 46.) Sif, Rakel (Hallbera 56.) Vanja, Kata, Dóra María og Margrét


Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow