<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 28, 2007

5-0 frábær sigur í kvöld í góðri ferð til Akureyrar.. 

Í kvöld skelltum við okkur til heimabæjar Ástu Árna, Akureyrar (bærinn þar sem Ásta bókstaflega þekkir alla) og spiluðum á frábærum Akureyrarvelli en völlurinn var bara "teppi" eins og maður segir á fótboltamáli. Mikil stemning var í hópnum sem náði hámarki þegar Dóra María flaug á hausinn þegar leikmenn voru að ganga inná völlinn í upphafi leiks. Þegar leikurinn byrjaði síðan vorum við gríðarlega einbeittar og áttum leikinn frá upphafi til enda. Fyrstu mínúturnar voru algjörlega okkar þó við næðum ekki að skora strax en Þór/KA getur þakkað góðum markverði sínum sem hélt þeim lengi vel inni í leiknum. Fyrsta mark leiksins kom á 28.mínútu þegar brotið var á okkur á miðjunni, Margrét var fljót að átta sig og átti frábæra sendingu inní teiginn þar sem Katrín Jónsdóttir fyrirliði stangaði boltann inn og staðan orðin 1-0. Virkilega flott mark. Annað mark leiksins kom eftir hornspyrnu, aftur var það eftir góða spyrnu Margrétar sem Kata kláraði af miklu harðfylgi á 40.mínútu. Staðan var 2-0 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja. Það var aðeins annar andi í klefanum í þessum hálfleik en í síðasta leik sem við spiluðum enda vorum við að spila hreint frábærlega á köflum og náðum að gegnumspila þéttskipaða vörn Þórs/KA. Við byrjuðum seinni hálfleik að sama krafti og skoruðum þriðja mark leiksins strax á 48.mínútu og var það einkar vel að verki staðið.
Dóra María og Margrét léku þríhyrninga upp völlinn út að endalínu og Dóra renndi honum út á Margréti sem kláraði færið mjög vel og staðan orðin 3-0 og leikurinn algjörlega í okkar höndum.
Á 59.mínútu gerði Beta tvöfalda skiptingu þegar hún tók Sif og Thelmu útaf fyrir Rakeli Loga og Lindu Rós en þær áttu báðar mjög góðar innkomur.
Fjórða mark leiksins kom eftir virkilega gott spil hjá okkur á 64.mínútu.
Fríða átti frábæra sendingu yfir vörnina á Vönju sem komst framhjá bakverðinum og lagði hann fyrir markið á Margréti sem kláraði færið örugglega. Við héldum áfram að spila vel og skapa okkur mörg færi sem við hefðum þó getað nýtt betur en það sem er virkilega jákvætt er að við náðum upp frábæru miðjuspili og mjög fáar langar sendingar og háloftaspyrnur litu dagsins ljós.
Á 77.mínútu var Vanja tekin útaf fyrir Báru sem kom inn af mikilli grimmd og vann ótrúlega mikið af boltum með ákveðni sinni.
Nína Ósk skoraði síðan síðasta mark okkar á lokamínútunum eftir mikið harðfylgi í teignum og lokatölur urðu því 5-0 eftir frábæran leik.
Kata var frábær í leiknum og fór fyrir liðinu eins og sönnum fyrirliða sæmir. Síðan má eiginlega segja að allir leikmenn liðsins hafi verið “vel inní leiknum” og kannski klisja að segja að allir hafi staðið sig mjög vel en þannig var það nú samt:) Margrét skoraði tvö góð mörk auk þess sem hún lagði upp mörk og skapaði færi fyrir félaga sína. Dóra María var arkitektinn af ófáum uppspilum sem enduðu yfirleitt alltaf með góðu færi eða marki. Vörnin steig varla feilspor en Þór/KA skapaði sér nánast engin opin marktækifæri. Thelma Björk byrjaði inná í sínum fyrsta leik á Íslandsmóti og stóð sig með sóma.
Liðið í kvöld: Gugga, Ásta, Fríða, Hallbera, Sif (Linda 59.) Thelma (Rakel 59.), Kata, Dóra María, Vanja (Bára 77.), Nína og Margrét.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow