<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

4-0 sigur í Keflavík, Íslandsmeistarar?? 

Í kvöld mættum við til Keflavíkur og tókum þar á móti heimastúlkum í blíðskaparveðri. Leikurinn byrjaði með látum og strax á 2.mínútu keyrði Margrét Lára upp hægri kantinn og lagði boltann út á Thelmu sem átti skot að marki sem var varið á marklínu, boltinn datt út til Guðnýjar sem kláraði færið laglega og kom okkur í 1-0.
Eftir þetta áttum við nokkur góð færi en mark 2 kom síðan á 35.mínútu þegar Rakel Loga átti frábæra sendingu inná Margréti Láru sem slapp ein í gegn, hún skaut í stöng í fyrstu tilraun fékk boltann aftur og fylgdi vel á eftir og skoraði örugglega og staðan orðin 2-0 en þannig var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik fengum við fljótlega hornspyrnu sem Margrét tók frá vinstri, boltinn fór beint á kollinn á Katrínu sem skallaði hann örugglega í netið og staðan því orðin 3-0 og sigurinn orðin nokkuð vís. Fjórða og síðasta mark leiksins var einkar fallegt en Guðný átti þá góða sendingu yfir á Margréti í teignum sem tók hann á kassann og hamraði honum í þaknetið. Við áttum fjölmörg færi í viðbót og skutum m.a í slá og varið á línu en mörkin urðu þó ekki fleiri og 4-0 öruggur sigur í höfn.
Frábær sigur og nánast aðeins formsatriði að klára Íslandsmeistartitilinn en e-h stórslys þarf að gerast til að við lyftum ekki Íslandsbikarnum núna á sunnudaginn. Ásta Magga var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn og stóð sig mjög vel. Kata fyrirliði átti frábæran leik í kvöld eins og reyndar allir leikmenn liðsins. Vörnin með allt á hreinu en dómarinn var heldur spjaldaglaður í þessum leik og fengum við 3 gul í seinni hálfleik.
Ég vil koma á framfæri þökkum til þeirra sem sáu sér fært að koma með okkur til Keflavíkur en við eigum klárlega bestu stuðningsmenn landsins:)
Liðið: Gugga, Pála, Fríða, Ásta, Hallbera (Andrea), Guðný, ÁstaM (Rut), Kata, Thelma (Sara), Rakel og Margrét

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Miðvikudagsmyndin 



það er greinilegt að við erum með börn

innanborðs í liðinu okkar :)


sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ný vika í nánd og keflavík í næsta leik! 

Næsti leikur okkar valsstúlkna verður á móti Keflavík á Keflavíkurvelli miðvikudaginn 30.ágúst klukkan 18.30. Þessi leikur er okkur gríðarlega mikilvægur en með sigri erum við svo gott sem búnar að tryggja okkur Íslandsmeistaratitilinn í ár þar sem breiðablik er þremur stigum á eftir okkur þegar aðeins 2 umferðir eru eftir af mótinu. Þess vegna vil ég hvetja ALLA sem okkur styðja að mæta með okkur til Keflavíkur og styðja okkur til sigurs! ÁFRAM VALUR!

Dóra María verður ekki með í leiknum né í fleiri leikjum í sumar því á morgun heldur hún til Bandaríkjana þar sem hún stundar nám í Rhode Island. Aðrir leikmenn liðsins eru klárir í slaginn eftir erfiða "landsliðsviku" en tveir landsleikir fóru fram í gær og síðasta laugardag á móti Tékkum og Svíum og töpuðust því miður 4-2 og 4-0.

Aðrir leikir í 13.umferð sem fara einnig fram á miðvikudag eru: KR - Þór/KA, Breiðablik - Fylkir og FH - Stjarnan

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

miðvikudagsstaðreynd 


EINA liðið í heiminum fyrir utan Ísland 2006-2007

Úrslit kvöldsins segja ALLT ...

Æfingar munu framvegis ALDREI vera á leiktíma þessa liðs
Teddi hafðu það hugfast hmmmmmmmmm :)

Njótið myndarinnar og þessa að horfa á snillinga spila fótbolta í hverri viku undir öruggri stjórn besta þjálfara heims

Blue team tilkynnt...hópurinn óbreyttur.. 

Í dag var A landslið Íslands tilkynnt sem tekur á móti Svíum laugardaginn 26.ágúst klukkan 14.00. Við valsarar eigum þar sjö leikmenn eins og síðast en hópurinn er óbreyttur frá því í Tékkaleiknum sem tapaðist því miður 4-2.
Gugga, Kata, Margrét, Dóra María, Ásta, Fríða og Guðný - TIL HAMINGJU.

Hérna má sjá allan hópinn: http://www.ksi.is/media/landslid/akvenna/A_kvenna_Svitjod_agust2006_hopur.doc
Ég vil hvetja fólk til að mæta á völlinn og styðja liðið áfram en Svíar eru með gríðarlega sterkt lið eins og flestir vita. ÁFRAM ÍSLAND!

Komnar í bikarúrslit! 


Í gær tókum við á móti Stjörnunni í undanúrslitum Visa-bikars kvenna á Valbjarnarvelli en leikurinn fór fram við afar erfiðar aðstæður en það var rok og rigning mestallan leikinn. Okkar ástkæri heimavöllur er því miður ekki í alltof góðu standi þessa dagana en við létum það ekki á okkur fá enda jafnslæmt fyrir bæði lið. Sara kom inní byrjunarliðið í fyrsta sinn en hún lék sem djúpur miðjumaður.
Leikurinn fór mjög rólega af stað og fá alvöru marktækifæri litu dagsins ljós. Við réðum ferðinni í fyrri hálfleik en við spiluðum á mótti strekkingsvindi og náðum sjaldan að lyfta boltanum yfir vörn Stjörnunnar. Stjarnan reyndi síðan að beita skyndisóknum og fengu þær nokkur færi út úr því.
Í byrjun seinni hálfleiks, strax á 48. mínútu komst Björk Gunnarsdóttir í gegn og kom stjörnunni í 1-0. Eftir það spýttum við í lófana og Katrín Jónsdóttir fyrirliði jafnaði metin eftir fallega sókn á 65.mínútu. Rétt á undan hafði Thelma Ýr átt skot í slá og markið lá í loftinu.. Það var síðan á 80.mínútu leiksins að Rakel Logadóttir skoraði sigurmark okkar eftir langt útspark frá markmanninum en hún kláraði færið sitt á glæsilegan hátt, tók við boltanum og lyfti honum yfir söndru markmann. Rétt fyrir leikslok átti Dóra María frábært skot í markvinkilinn en hún tók hann á lofti og hamraði honum í átt að marki. Þetta hefði án efa verið mark keppninnar ef boltinn hefði legið inni. Við áttum nokkur færi í viðbót áður en leiknum lauk en lokatölur urðu 2-1 okkur í hag og við því komnar í bikarúrslit!!
Ekki góður leikur af okkar hálfu en eins og Margrét sagði svo skemmtilega "það eru góðu liðin sem vinna þrátt fyrir að spila illa"
Stuðarar völdu Guðnýju mann leiksins en hún stóð sig vel í vörninni í gær

Liðið: Gugga, Guðný, Ásta, Pála, Fríða, Dóra María, Sara (Ásta), Thelma (Rut), Kata, Rakel (Hallbera) og Margrét Lára


föstudagur, ágúst 18, 2006

Undanúrslit í bikar næst! 

Næsti leikur okkar er undanúrslit í Visa bikar kvenna á móti Stjörnunni. Leikurinn fer fram þriðjudaginn 22. ágúst klukkan 17,00 á Valbjarnarvelli og er hann í beinni útsendingu. Allir að koma á völlinn og styðja okkur til sigurs! ÁFRAM VALUR!!
Hinn undanúrslitaleikurinn er á milli núverandi bikarmeistara Breiðabliks og 1.deildarliðs Fjölnis.

Einnig vil ég minna á landsleik Íslands og Tékklands á morgun klukkan 16.00 á laugardalsvelli, allir að mæta á völlinn enda eigum við þar 7 leikmenn + aðstoðarþjálfara!!

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Miðvikudagsmyndin... 

Er þessi búin að skora fleiri en 100 mörk?

Skemmtingur 

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur vefstjóri síðunnar ekki fengist til þess að setja inn nýja færsla. Er því um lítið annað að ræða en að grípa sjálfur í taumana og því setja inn þessa fínu færslu.

Laufeyju Ólafsdóttur til heiðurs ætla ég að benda ykkur á þetta. Tékkit!!?

Eva

laugardagur, ágúst 12, 2006

5-2 sigur og 3 mikilvæg stig í höfn! 

Í gær tókum við á móti KR á Valbjarnarvelli en fram til þessa höfðum við unnið KR bæði í deild og bikar í mjög erfiðum leikjum í ár.
Leikurinn í gær var engin undantekning á því. KR ingar fengu fyrsta færi leiksins strax eftir tæplega mínútu leik en skot þeirra fór yfir markið. Eftir það sóttum við í okkur veðrið og á 12.mínútu var brotið á Margréti Láru innan teigs og vítaspyrna dæmd sem hún tók sjálf og skoraði örugglega og staðan 1-0. Oft hefur verið veifað rauðu spjaldi á brot sem þetta enda var Margrét komin ein í gegn þegar aftasti leikmaður KR braut á henni en dómarinn veifaði aðeins gula spjaldinu.
Eftir markið slökuðum við svolítið á og KR ingar náðu að jafna metin á 17.mínútu leiksins. Næstu mínútur einkenndust af mikilli baráttu milli beggja liða og það var augljóst þá að 1-1 yrði ekki lokastaðan í leiknum enda var leikurinn mjög opin og skemmtilegur. Fríða kom okkur síðan í 2-1 á 36.mínútu þegar KR ingum mistókst að koma boltanum frá eftir hornspyrnu. Strax á eftir hefðum við getað komist í 3-1 en skot Rakelar var vel varið í horn (dómarinn dæmdi reyndar útspark..?)
KR ingar voru betri það sem eftir lifði hálfleiksins og áttu meðal annars skot í stöng en staðan var 2-1 þegar liðin gegnu til búningsherbergja.
Beta gerði eina breytingu á liðinu í hálfleik en Andrea Ýr kom inná í staðin fyrir Hallberu.
KR ingar reyndu hvað þeir gátu í seinni hálfleiknum og áttu fjölmargar sóknir en þær voru á tímabili með 5 leikmenn í framlínunni. Við það opnaðist vörn þeirra mikið og úr einni skyndisókn skoruðum við gott mark þegar Margrét slapp innfyrir hægra megin í teignum og lyfti boltanum fallega yfir markvörð KR.
Á 74.mínútu leiksins náði KR að minnka muninn en þar var á ferðinni markamaskínan Olga Færseth með skot úr miðjum teig.
KR ingar héldu áfram að sækja en náðu ekki að skora fleiri mörk. Í staðinn fengum við góðar skyndisóknir enda KR ingar fámennaðar í öftustu línu, Margrét komst ein í gegn og skoraði fjórða mark okkar á 82.mínútu en mark ársins var fimmta og síðasta mark okkar þegar Margrét átti flotta sendingu á Dóru Maríu sem tók hann á lofti og hamraði hann glæsilega í netið. Eitt af fallegustu mörkum sumarsins án efa!
Leikurinn fór semsagt 5-2 og gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum enda áttu KR ingar mikið í leiknum og voru alls ekki síðra liðið framan af. Það varð þeim samt að falli að nýta ekki færin og færa allt lið sitt framar á völlin og skilja vörnina eftir svona opna en í lok leiksins voru KR ingar stundum með aðeins 2-3 leikmenn til baka.
Innkoma varamanna var frábær í leiknum en Andrea spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik og Sara kom síðan inná 73.mínútu og stóð sig frábærlega og vil ég meina að hún hafi komið í veg fyrir allavega 1 mark eftir hornspyrnu KR inga.
Þessi þrjú stig voru okkur gríðarlega mikilvæg og má með sanni segja að við séum núna komnar með aðra höndina á Íslandsmeistaratitilinn. Stuðaðar völdu Ástu Árnadóttur mann leiksins enda var hún vel að því komin stelpan.
Liðið: Gugga, Ásta, Fríða, Pála, Guðný, Hallbera (Andrea) Kata, Dóra María, Thelma (Sara) Rakel og Margrét.

Eftir leikinn bauð Margrét Lára til veislu í tilefni af tvítugsafmæli sínu nú á dögunum en það er mjög langt síðan liðið hefur skrallað saman. Stelpan eldaði ofan í liðið með glæsibrag og heppnaðist partýið með eindæmum vel.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

KR á morgun! 



Á morgun, föstudaginn 11.ágúst, tökum við á móti KR á heimavelli okkar í 12.umferð Landsbankadeildar kvenna. Leikurinn er semsagt á Valbjarnarvelli klukkan 19.15!
Ég hvet alla til að mæta og styðja okkur til sigurs en leikirnir við KR hafa hingað til alltaf verið mjög spennandi og skemmtilegir leikir.
ÁFRAM VALUR!
Aðrir leikir í 12.umferð sem fara fram á sama tíma eru: Stjarnan - Fylkir og FH - Keflavík.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Miðvikudagsmyndin.. 


Lambið aðeins að worka mallan..

Sjö Valsarar í landsliðinu!! 

Jörundur Áki Sveinsson landsliðsþjálfari hefur tilkynnt A landslið kvenna sem mætir Tékkum þann 19. ágúst nk. en við eigum sjö fulltrúa í hópnum: Gugga, Margrét, Dóra, Fríða, Ásta, Kata og Guðný til hamingju allar!

hópurinn í heild er þannig skipaður:
Markverðir Þóra B. Helgadóttir Breiðablik, Guðbjörg Gunnarsdóttir Valur
Aðrir leikmenn: Ásthildur Helgadóttir (F) Malmö FF, Guðlaug Jónsdóttir Breiðablik, Katrín Jónsdóttir Valur, Edda Garðarsdóttir Breiðablik, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir Breiðablik, Margrét Lára Viðarsdóttir Valur, Hólmfríður Magnúsdóttir KR, Dóra María Lárusdóttir Valur, Málfríður Erna Sigurðardóttir Valur, Erna B. Sigurðardóttir Breiðablik, Erla Steina Arnardóttir Mallbackens, Ásta Árnadóttir Valur, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir Breiðablik, Greta Mjöll Samúelsdóttir Breiðablik, Guðný Björk Óðinsdóttir Valur, Katrín Ómarsdóttir KR

sunnudagur, ágúst 06, 2006

.....Gleðilega þjóðhátið.... 


laugardagur, ágúst 05, 2006

.....Celeb of the week..... - THE FISH! 


Guðný Björk Óðinsdóttir fær þann heiður að vera stjarna vikunnar. Þann mikla heiður hlýtur hún fyrir þann merka árangur að hafa spilað með öllum landsliðum íslands á rétt rúmu ári.
Sumarið 2005 spilaði hún alla leiki með U17 og 2 leiki með U19 um haustið.

Í ár hefur stelpan heldur betur slegið í gegn í bláa búningnum, hún var lykilleikmaður í milliriðli EM með U19 og spilaði 3 leiki í apríl með liðinu. Guðný var síðan valin í A-landsliðið á móti Portúgal í sumar og kom inná í þeim leik og var síðan í byrjunarliði U21 í Noregi og spilaði þar alla fjóra leikina.
Þetta er ansi merkilegur árangur hjá Guonu sem er án efa einn allra efnilegasti leikmaður Íslands...
Hver verður Celeb næstu viku??

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Tap í Kópavoginum.. 

Í kvöld töpuðum við 1-2 á móti ágætu liði Breiðabliks en við áttum vægast sagt dapran dag en vorum þó sterkari aðillinn í leiknum. Strax á elleftu mínútu fengum við á okkur mark eftir hornspyrnu en þar var á ferðinni Edda Garðarsdóttir eftir að okkur mistókst að koma boltanum í burtu eftir klafs..
Á 27.mínútu skoruðu blikarnir ansi vafasamt mark eftir hornspyrnu en í nánast öllum tilvikum er flautað þegar keyrt er inn í markmann sem er komin með hendur á bolta..
Við áttum fjölmörg færi í fyrri hálfleik sem annað hvort enduðu í höndum eða fótum Þóru í blikamarkinu eða framhjá.
Í seinni hálfleik komum við aðeins sterkari til leiks og á 62.mínútu náðum við að minnka muninn eftir góða sókn, Margrét gaf á Dóru Maríu sem átti frábæra sendingu yfir á Julie Fleeting sem renndi honum í markið.
Það má segja að blikarnir hafi gjörnýtt sín færi í leiknum en við fórum illa með okkar færi og það skilaði blikunum þrjú stig í kvöld.
Nú er komið kærkomin pása fyrir leikmenn að hvíla sig en margir af okkar leikmönnum eru búnir að spila 7 leiki frá 14.júlí og var mikil þreyta sýnileg í kvöld.
liðið: Gugga, Ásta, Pála (Magga), Fríða, Guðný, Hallbera, Rakel, Dóra María, Kata, Julie (Rut) og Margrét
Ég vil þó koma á framfæri þökkum til trommaranna og aðra stuðningsmanna liðsins sem létu svo sannarlega vel í sér heyra en þeir áttu klárlega skilið að sjá betri leik hjá okkur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow