<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, ágúst 12, 2006

5-2 sigur og 3 mikilvæg stig í höfn! 

Í gær tókum við á móti KR á Valbjarnarvelli en fram til þessa höfðum við unnið KR bæði í deild og bikar í mjög erfiðum leikjum í ár.
Leikurinn í gær var engin undantekning á því. KR ingar fengu fyrsta færi leiksins strax eftir tæplega mínútu leik en skot þeirra fór yfir markið. Eftir það sóttum við í okkur veðrið og á 12.mínútu var brotið á Margréti Láru innan teigs og vítaspyrna dæmd sem hún tók sjálf og skoraði örugglega og staðan 1-0. Oft hefur verið veifað rauðu spjaldi á brot sem þetta enda var Margrét komin ein í gegn þegar aftasti leikmaður KR braut á henni en dómarinn veifaði aðeins gula spjaldinu.
Eftir markið slökuðum við svolítið á og KR ingar náðu að jafna metin á 17.mínútu leiksins. Næstu mínútur einkenndust af mikilli baráttu milli beggja liða og það var augljóst þá að 1-1 yrði ekki lokastaðan í leiknum enda var leikurinn mjög opin og skemmtilegur. Fríða kom okkur síðan í 2-1 á 36.mínútu þegar KR ingum mistókst að koma boltanum frá eftir hornspyrnu. Strax á eftir hefðum við getað komist í 3-1 en skot Rakelar var vel varið í horn (dómarinn dæmdi reyndar útspark..?)
KR ingar voru betri það sem eftir lifði hálfleiksins og áttu meðal annars skot í stöng en staðan var 2-1 þegar liðin gegnu til búningsherbergja.
Beta gerði eina breytingu á liðinu í hálfleik en Andrea Ýr kom inná í staðin fyrir Hallberu.
KR ingar reyndu hvað þeir gátu í seinni hálfleiknum og áttu fjölmargar sóknir en þær voru á tímabili með 5 leikmenn í framlínunni. Við það opnaðist vörn þeirra mikið og úr einni skyndisókn skoruðum við gott mark þegar Margrét slapp innfyrir hægra megin í teignum og lyfti boltanum fallega yfir markvörð KR.
Á 74.mínútu leiksins náði KR að minnka muninn en þar var á ferðinni markamaskínan Olga Færseth með skot úr miðjum teig.
KR ingar héldu áfram að sækja en náðu ekki að skora fleiri mörk. Í staðinn fengum við góðar skyndisóknir enda KR ingar fámennaðar í öftustu línu, Margrét komst ein í gegn og skoraði fjórða mark okkar á 82.mínútu en mark ársins var fimmta og síðasta mark okkar þegar Margrét átti flotta sendingu á Dóru Maríu sem tók hann á lofti og hamraði hann glæsilega í netið. Eitt af fallegustu mörkum sumarsins án efa!
Leikurinn fór semsagt 5-2 og gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum enda áttu KR ingar mikið í leiknum og voru alls ekki síðra liðið framan af. Það varð þeim samt að falli að nýta ekki færin og færa allt lið sitt framar á völlin og skilja vörnina eftir svona opna en í lok leiksins voru KR ingar stundum með aðeins 2-3 leikmenn til baka.
Innkoma varamanna var frábær í leiknum en Andrea spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik og Sara kom síðan inná 73.mínútu og stóð sig frábærlega og vil ég meina að hún hafi komið í veg fyrir allavega 1 mark eftir hornspyrnu KR inga.
Þessi þrjú stig voru okkur gríðarlega mikilvæg og má með sanni segja að við séum núna komnar með aðra höndina á Íslandsmeistaratitilinn. Stuðaðar völdu Ástu Árnadóttur mann leiksins enda var hún vel að því komin stelpan.
Liðið: Gugga, Ásta, Fríða, Pála, Guðný, Hallbera (Andrea) Kata, Dóra María, Thelma (Sara) Rakel og Margrét.

Eftir leikinn bauð Margrét Lára til veislu í tilefni af tvítugsafmæli sínu nú á dögunum en það er mjög langt síðan liðið hefur skrallað saman. Stelpan eldaði ofan í liðið með glæsibrag og heppnaðist partýið með eindæmum vel.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow