<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Valur - Breiðablik á morgun! 


Á morgun, föstudaginn 31.ágúst fáum við Breiðablik í heimsókn á Valbjarnarvöll og spilum við þær klukkan 18.30. Fyrri leikur liðanna fór 4-0 okkur í hag þar sem tveir leikmenn breiðabliks fengu að líta rauða spjaldið. Við spiluðum einnig við blikana í bikarnum og töpuðum eftirminnilega 2-1. Við viljum hvetja alla til að koma á völlinn og styðja okkur til sigurs!

ÁFRAM VALUR!!!
Í kvöld fara fram 3 leikir í deildinni, Þór/Ka - KR, ÍR - Fjölnir og Stjarnan - Fylkir.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Siggi Raggi velur Blue Team 

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna, hefur tilkynnt landsliðshóp sinn sem fer til Slóveníu og leikur gegn heimastúlkum. Leikurinn fer fram sunnudaginn 26. ágúst og hefst kl. 15:00.
Við eigum alls 8 leikmenn í hópnum, Gugga, Kata, Margrét, Dóra María, Ásta, Rakel, Guðný og Sif, til hamingju allar!

Hér er hópurinn í heild: http://ksi.is/media/landslid/akvenna/A_kvenna_Slovenia_agust_2007_hopur.doc

laugardagur, ágúst 18, 2007

9-0 Stórsigur í Keflavík 

Í dag spiluðum við ellefta leik okkar í deildinni í blíðskaparveðri í Keflavík á virkilega góðum grasvelli og öll aðstaða suður með sjó til fyrirmyndar. Dagurinn hófst með rútuferð frá Valsheimilinu en liðið virðist alltaf spila betur eftir rútuferðir. Við byrjuðum leikinn ekkert sérstaklega vel en sköpuðum okkur þónokkur færi sem serbneski markvörðurinn Jelena Petrovic varði öll flest. Á 21.mínútu urðum við fyrir áfalli þegar Vanja var borinn meidd af velli en hún fékk hné í höfuðið á sér og vankaðist alvarlega við það og var flutt með sjúkrabíl enda tekur maður ekki séns á svona meiðslum. Nína kom inná í hennar stað og hún átti svo sannarlega eftir að láta til sín taka. Á 27.mínútu rufum við síðan varnarmúr Keflvíkinga. Kata átti skot að marki sem fór í varnarmann og þaðan til Margrétar í teignum sem setti boltann laglega í hornið. Eftir þetta opnuðust allir flóðgáttir. Kata skoraði eftir fyrirgjöf frá vinstri annað mark okkar í leiknum, skömmu áður hafði hún átt góða tilraun til hjólhestaspyrnu sem mislukkaðist þó. Aðeins þremur mínútum síðar eða á 35.mínútu skoraði Guðný þegar hún kom askvaðandi á fjærstöng og renndi boltanum í netið eftir frábært samspil upp völlinn. Nína skoraði síðan fjórða mark okkar á 39.mínútu en á þessum tímapunkti voru keflvíkingar spilaðir sundur og saman. Margrét skoraði síðan mínútu síðar þegar Rakel átti fyrirgjöf frá vinstri og serbneski markvörðurinn missti boltann beint í fætur Margrétar sem átti ekki erfitt með að renna boltanum inn. Á 44.mínútu var síðan dæmd vítaspyrna, Guðný var í baráttu í teignum og boltinn fór í hendina á varnarmanni keflvíkinga. Víti var dæmt sem Margrét tók og skoraði örugglega, staðan var því orðin 6-0. Við náðum að bæta við öðru marki fyrir leikhlé en Keflavíkurliðið virtist enn vera að svekkja sig á fyrri mörkum og sofnuðu á verðinum, Margrét fékk góða sendingu innfyrir, tók boltann á kassann og renndi boltanum í hornið fjær. ÓTRÚLEGUR 20.mínútna kafli hjá okkur, en við skoruðum semsagt 7 mörk á þessum tíma. Í hálfleik fór Berry útaf fyrir Fríðu sem kom inn djúp á miðju. Dóra María var færð í bakvörð en hún hefur prófað flestar stöður í undanförnum leikjum. Við róuðumst aðeins í seinni hálfleik en færin létu þó ekki á sér standa. 8. mark leiksins kom eftir langt útspark úr markinu inn fyrir vörnina og Margrét kominn ein í gegn og gerði þetta laglega og staðan því 8-0. Á 71.mínútu kom Linda inná í hægri bakvörð og Kata fór útaf. Síðasta mark leiksins kom úr vítaspyrnu á 86.mínútu þegar Dóra María var felld innan teigs og réttilega dæmt víti. Margrét skoraði örugglega úr spyrnunni og innsiglaði 9-0 stórsigur á Keflavík. Í seinni hálfleik voru nýjir hlutir prófaðir en Sif fór í senterinn og var óheppin að setja ekki 1-2 mörk. Pála hefur verið að koma inní í hornum og var virkilega hættuleg en markvörður Keflvíkinga náði að verja 2x vel frá henni. Dóra María hefur verið að spila FRÁBÆRLEGA fyrir liðið og er hreint sorglegt að þetta hafi verið hennar síðasti leikur með Val þetta árið en hún fer fljótlega aftur til USA þar sem skólinn býður hennar.
9-0 frábær sigur í höfn, Keflavík sá aldrei til sólar, sköpuðu sér nokkur hálffæri sem vörnin átti ekki í vandræðum með og við vorum virkilega hættulegar frammávið og settum 9 stykki í dag. Frábær endir á þessari leikjahrynu en nú er kærkomið “smá-frí” eftir evrópukeppnina og deildarleik þar sem það er landsleikur í næstu viku og frí í deildinni. (og við ekki lengur í VISA-bikarnum...)
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Sif, Guðný, Kata (Linda 71.) Vanja (Nína 21.) Dóra María, Rakel, Hallbera(Fríða 46.) og Margrét Lára.

föstudagur, ágúst 17, 2007

PARTY!!!!!!!!! 

Já ég sagði bara bless í bili.

PARTY Á MORGUN Í GARÐASTRÆTINU!!!!

Húsið er númer 19 og ég veit ekki hvort bjöllurnar virka. Kem með ítarlegri leiðbeiningar á morgun.

Berry....aftur

Áskorun tekið....sagan endalausa 

Þar sem ég er ekki þekkt fyrir það að skorast undan áskorunum s.s. að syngja Whitney Houston, dansa og halda kynfræðslu með ofnhanska þá ætti ekki að vera mikið mál að setja saman 1 stk ferðasögu.....vona ég

Alright! Ferðin hófst á Hlíðarenda klukkan 5 ef mig rangminnir ekki en vegna tafar á fluginu til Fjöreyja vorum við farnar í loftið um rúmlega 10!!! En þá var ekkert annað að gera en að skella sér í vesturbæjarís og fá sér einn gamlan og einnig voru búnir til nokkrir skopparaboltaleikir sem slógu all svakalega í gegn og tíminn flaug áfram :)

Loksins komumst við þó á áfangastað þar sem 17 ára öfuga stórreykingarkonan María tók á móti okkur. Þá var förinni heitið í heitasta pláss Færeyja...Klaksvik.
Við áttum gistipláss í heimavist Tekniska Skolen og allir farnir að hlakka til að komast í rúmin sem María sagði að biðu eftir okkur. ahhh...

Ennnnn.....Aðkoman var allt önnur en við áttum von á og það sem beið okkar voru litlir fangaklefar með 2 grjóthörðum beddum þar sem mölétin sængurföt og sömuleiðis handklæði biðu okkar. Beta sá sig neydda til þess að halda fund áður en við færum upp í herbergin og vara dekruðu íslendingana við aðstæðum. En þar sem við erum af víkingum komnar þá létum við þetta smámál ekkert á okkur fá og sváfum eins og steinar...svona næstum því.

Veðrið fyrsta daginn var gott á íslenskan mælikvarða, sól og dálítið kalt en heimamenn voru búnir að rífa sig úr við fyrsta sólargeisla. Við skildum afhverju næsta dag, því þá tók þokan og rigningin við alla ferðina eða heila viku.

Þeir sem vilja lesa um leikina geta skrollað niður því ég nenni ekki að skrifa neitt um þá nema það að við spiluðum mjög vel allt mótið og þó að lykilleikmenn voru hvíldir hélt liðið alltaf dampi (flott orð...vona að ég sé að nota það rétt)

En við reyndum eins og við gátum að skemta okkur í góða veðrinu og voru tölvurnar mjög vinsæl afþreying en einnig var spilaður póker þar sem "the queen" var ósigrandi en minni spámenn eins og "the tornado" sem seinna var kallaður golan og "catwoman" áttu misgóðu gengi að fagna. En svo var líka sett upp virkilega óhugnalegt draugahús í stigaganginum og eldhúsinu sem margir voru á taugum eftir. Elísabet Gunnarsdóttir var þar fremst í flokki ásamt nokkrum hjálparsveinum og mátti sjá tár á hvarmi leikmanna og aðstoðarþjálfara. Nefni engin nöfn...Freysi......

Svo varð það hin ógurlega víxla....en þar sem ég er bundin þagnareyði þá segi ég ekki meira um hana :)

En lokakvöldið var mjög eftirminnilegt. Valsliðið fór á kostum á lokahófinu þar sem hver stjarnan á fætur annari tróð upp og stóð upp úr gítaratriði Önnu Garðars sem bætti heldur betur fyrir HRÆÐILEGT uppistands sem hún þurfti að halda vegna lélegrar útkomu í money square. Svo var ein stelpa sem söng One moment in time, og mátti sjá mörg grátbólgin augu eftir flutninginn. Færeyskur bjór og Jolly var teygað og nokkrir orðnir ansi hressir og því var ekki annað hægt að gera en að halda uppí skóla og halda break keppni. En ég held að það sé óhætt að segja að Freysi hafi sigrað hana með yfirburðum með mjög frumlegar útfærslur af skrikkdansi.
Nokkrir extra harðir ákváðu þá að kíkja á heitasta bar bæjarins, Maveric og fékk górillan að fara með en hún vakti mikla kátínu heimamanna.

Síðasta nóttin á þessum æðislega stað var veruleiki. Haldið var í háttinn við mikla sorg og söknuð. Við áttum aldrei eftir að liggja aftur á hörðu beddunum. Við áttum aldrei eftir að finna fúkkalyktina af sængurfötunum aftur. Við áttum aldrei eftir að borða yndislega matinn á hótelinu aftur. Við kvöddum Færeyjar með miklum trega það eitt er víst. En það var svosem ágætt að koma aftur á Íslandið góða þar sem við fengum smá móttöku í valsheimilinu með dominos og gosi. Takk fyrir það.

En dömur mínar og herrar, börn og aðrir.

Ég þakka lesninguna og vona að þið getið lesið þessi djúpu og menningarlegu orð.

Bless í bili....Berry

Keflavík - Valur á morgun! 


Á morgun spilum við ellefta leik okkar í Landsbankadeild kvenna og er hann á móti Keflavík á Keflavíkurvelli, laugardaginn 18.ágúst klukkan 14.00. Fyrri leikur liðanna endaði 4-1 okkur í hag eftir að staðan hafi verið 2-1 í hálfleik. Við viljum hvetja alla til að mæta á völlinn og styðja okkur til sigurs! ÁFRAM VALUR!


Í hádeginu í gær var síðan tilkynnt lið umferða 7-12 í landsbankadeild kvenna og áttum við þar fjóra leikmenn: Gugga, Guðný, Kata og Margrét - til hamingju allar

Ferðasaga frá færeyjum kemur fljótlega inn og búið er að skora á Hallberu í þeim málum þar sem "vefstjórinn" er pínulítið upptekinn þessa dagana..

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Komnar áfram!! Jibbí Kóla 








Eins og margir vita, þá bárum við Valspíur sigurorð af Færeysku meisturunum KÍ og erum þ.a.l komnar uppúr riðlinum og áfram í evrópukeppninni. Eitthvað hefur gleymst að blogga um leikinn í sigurvímunni og sælunni, en betra er seint en aldrei.


Við byrjuðum leikinn af ágætis krafti og sóttum stíft á eyjaskeggjana. En eins og oft áður þá náðum við ekki að koma tuðrunni í netið klakklaust í Klakksvík. Heimasæturnar (og þó) reyndu af veikum mætti að sækja á mark okkar en voru þó mest í því að bomba boltanum í burtu við fyrsta tækifæri.

Það var ekki fyrr en á 40 mínútu að við náðum að brjóta múrin, en þá skallaði Rakel Logadóttir boltann glæsilega í mark Klaksvíkinga eftir góða fyrirgjöf Margrétar Lauru.


Klaksvíkurstúlkur náðu einu hálf færi (kannski 1/4 færi) eftir þetta, þegar það kom aukaspyrna inn á teig og boltinn skoppaði einu sinni áður en Ása greip boltann örugglega við fætur fyrirliða vor.






Seinni hálfleikur var eign okkar frá upphafi og mörkunum hóf að rigna inn.



Guðný Björk komst inn í teig KÍ þar sem brotið var á henni og heldur slakur dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu (þó réttilega). Margrét reið á vaðið og staðan 2-0 eftir 50 mínútna leik eða svo.


5 mínútum síðar var Guðný mætt aftur og skallaði boltann stórglæsilega í fjær hornið eftir góða fyrirgjöf frá Vönju.

Þarna vorum við loksins komnar á rétta braut og eftir hnitmiðaða hornspyrnu marka sénísins var röðin komin að Dr. Kötu Jóns að hamra boltann í netið með sínum fræga hornspyrnuskalla.

Loksins var Kata búin að skora og þá var hægt að skipta henni ásamt svörtu perlunni útaf og hvíla gömlu konurnar :) og inná komu Dagný kjúlli og Nína Ósk sem áttu eftir að setja sinn svip á leikinn.









En þá var aftur komið að Margréti Láru sem náði að sóla 4 varnarmenn KÍ áður en hún lagði hann fagmannlega framhjá lánlausum markmanni Klakksvíkur.



Þá var loksins óhætt að taka varnartröllið Pálu Marie útaf a.k.a the terminator og inn á komu mjög ferskir fætur í eigu Thelmu Bjarkar sem átti góða spretti upp vinstri kantinn.

nokrum mínútum síðar lék Dagný upp hægri kantinn, sendi boltann á Margréti sem sendi út á Nínu Ósk sem var mætt í teiginn og setti hann örugglega í netið og rak þar með síðasta naglan í líkkistuna.






Byrjunarliðið :

Ása í markinu.

Linda Rós - Ásta - Pála - Hallbera

Rakel - Dóra - Kata (c) - Vanja

Guðný Björg

Marka Lára
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er ÞOKA í Færeyjum. Það var sól fyrsta daginn okkar hér og héldu innfæddir mikla hátíð við það að sjá í heiðann himinn. Þar færðu þau sólarguðinum fórnir og dönsuðu nakin á götum Klakksvíkur. En nú er holiday seasonið greinilega búið og þokan mætt til að vera sýnist okkur.
En við látum veðrið hér ekki draga okkur niður og útbjuggum við til dæmis mikið draugahús í stigaganginum í skólanum sem við erum í þar sem draugahússtjórinn var Beta. Einn kjúklingurinn fór að gráta ásamt Freysa en svo hræðilegt var húsið.
Svo var ferð í dag til stórborgarinna Thorshavn þar sem var spiluð keila og séð Man. U gera ömurlegt jafntefli veð Reading. Ferðinni var slúttað á Burger King þar sem heimamenn voru ekki allveg vanir að fá svona "stóran" hóp inn í einu en að lokum fengu allir burger í mallann og þá var haldið heim í volvo rútunni með Opruh í dvd spilaranum. Allir (næstum) sáttir :)
Nú tekur frægi tölvutíminn við þar sem það er tja...ekkert annað að gera ;)
Biðjum að heilsa heim á Íslandið góða.
Ritari dagsins
Hallbera "Berry" Gísladóttir



fimmtudagur, ágúst 09, 2007

2-1 stórkostlegur karaktersigur í höfn 


Mikil þoka var þegar við mættum á grasvöllinn í Færeyjum sem var staðsettur nokkurn veginn uppá fjalli á einni af eyjunum. Fc Honka byrjaði leikinn að krafti og fékk strax þónokkuð margar hættulegar hornspyrnur en þær voru mjög sterkar í föstum leikatriðum. Þær áttu að auki eitt hættulegt stangarskot. Síðan unnum við okkur smátt og smátt inní leikinn og það má því segja að Fc Honka hafi skorað gegn gangi leiksins þegar þær skoruðu mark beint úr hornspyrnu á 30.mínútu. Fram að markinu áttum við þónokkur marktækifæri en ber þar helst að nefna skallafæri Rakelar af markteig sem fór yfir. Staðan var 1-0 fyrir Fc Honka í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn spilaðist á móti nokkuð sterkum vindi og Honka spilaði mest löngum boltum sem við náðum frekar auðveldlega að verjast. Í hálfleik kom crazy ræða frá Gunnarz sem tróð því inní hausinn á okkur að ferðinn skyldi sko ekki enda í fyrsta leik. Við komum því trítilóðar út í seinni hálfleik og áttum hann frá upphafi til enda. Með vindinn í bakið og hápressu tókum við öll völd á vellinum og sköpuðum okkur fjölmörg færi. Beta gerði síðan tvær skiptingar á liðinu þegar hún tók Rakeli og Nínu af velli fyrir Dagný og Berry á 58.mínútu. Margrét fékk meðal annars tvö góð færi sem hún náði ekki að nýta og Guðný skoraði stórglæsilegt skallamark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Það má segja að dálítil taugaveiklun hafi verið komin í liðið, sérstaklega þar sem það var ekki leikklukka á vellinum og leikmenn vissu ekki hversu mikið var eftir af leiknum. Á 85.mínútu fengum við aukaspyrnu útá kanti sem Margrét tók beint á kollinn á Vönju sem skallið knöttinn í netið við gríðarleg fagnarlæti okkar Íslendinga. Þetta var hálfgert rothögg á Fc Honka sem hafði varist gríðarlega vel fram að þessu. Við létum okkur ekki nægja aðeins 1 stig í leiknum og bættum ennþá meiri þunga í sóknarleikinn í stað þess að halda fengnum hlut. Það var svo sannarlega þess virði en við fengum aðra aukaspyrnu á lokamínútu leiksins og Margrét Lára gerði sér lítið fyrir og skaut á markið af 30 metra færi og boltinn söng í netinu!!! Nokkru síðar flautaði dómarinn til loka leiksins og leikmenn trúðu varla hvað gerst hafði og einn allra sætasti sigur Vals í sögunni staðreynd!!!
Stórkostlegur karaktersigur
í höfn og kom persónuleiki liðsins berlega í ljós. Þolinmæði er orðið í dag en við misstum aldrei trúna á að við gætum unnið og héldum allan tíman áfram. Varnarleikur liðsins var virkilega góður og skapaði Honka sér nánast bara marktækifæri eftir föst leikatriði. Guðný var gríðarlega dugleg og hljóp gjörsamlega útum allt og Vanja spilaði einn sinn besta leik fyrir Val.. Mikill léttir er að hafa unnið þennan leik en við hefðum réttilega átt að hafa skorað 4-5 mörk áður en Margrét kláraði leikinn fyrir okkur eftir aukaspyrnuna. Við stjórnuðum nánast allan leikinn (fyrir utan smá hluta í byrjun) og má því segja að framfarir liðsins frá árinu 2005 séu gríðarlegar en þá unnum við þáverandi finnsku meistarana FC.United 2-1 og spiluðum EINUNGIS varnarleik og skoruðum eftir tvær skyndisóknir. Næsti leikur er við Færeysku meistarana KÍ á laugardag en þær voru rétt í þessu að gera 1-1 jafntefli við Hollensku meistarana.
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Guðný, Sif, Kata, Dóra María, Vanja, Rakel (Dagný 58.) Nína (Hallbera 58.) og Margrét Lára.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Seint koma sumir en koma þó!! 

Vegna óviðráðanlegra aðstæðna, varð seinkun á flugi okkar til Fjöreyja.
Þá er allveg dásamlega tilvalið að gera eina sívinsæla heyrst hefur færslu!!!

Heyrst hefur að..........


föstudagur, ágúst 03, 2007

Grillveisla í Firðinum..!! 

Ég ætla að bjóða ykkur sem eruð ekki að fara t.d til Vestmannaeyja (en jafnvel að fara til FÆReyja á þriðjudag) í grillaða hamborgara og partý á laugardagskvöld kl. 20.30, (semsagt í síðasta lagi 9 ef þið viljið heitan hamborgara). Við getum rætt þetta nánar á æfingu en takið kvöldið frá ef þið eruð ekki að fara úr bænum:)



Látið mig líka vita hverjir koma þannig ég viti cirka hvað ég þarf að kaupa mikið:)
Sjáumst á æfingu!!
p.s muna eftir 500 kalli til að dýrlingurinn okkar geti haldið áfram að spreða á okkur PUMA föt!!

Hallbera, bara fyrir þig! 















Það er ljóst hver er ljósmyndastjarnan í liðinu


4-1 sigur í kvöld!!! Nína með þrennu... 


Í kvöld spiluðum við á móti Stjörnunni í Garðabænum á gervigrasinu þeirra. Það tók okkur dágóðan tíma að venjast gervigrasinu enda ekki búnar að snerta gervigras síðan einhvern tíman snemma í maí. Stjörnustúlkur byrjuðu leikinn að krafti og sköpuðu sér nokkur hálffæri sem voru samt nokkuð hættulítil. Smátt og smátt tókum við síðan öll völd á vellinum og sköpuðum okkur þónokkur færi en það var Nína Ósk sem braut ísinn þegar hún skoraði framhjá Söndru markverði úr vítateig eftir góða sendingu frá Margréti. Við fengum nokkur dauðafæri í viðbót í fyrri hálfleik, einu sinni björguðu stjörnustúlkur á línu eftir skalla frá Fríðu eftir hornspyrnu og einu sinni komst Guðný í gott færi sem Sandra markvörður varði vel í horn. Staðan var 1-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés. Fyrri hálfleikurinn var í heildina ágætur þó við hefðum nú mátt vera búnar að skora nokkur í viðbót, Dóra María vann gríðarlega vel á miðjunni og Vanja var mjög ógnandi á vinstri kantinum. Í seinni hálfleik héldum við áfram yfirburðum á vellinum á meðan Stjarnan átti nokkrar skyndisóknir. Annað mark leiksins var ótrúlega vel útfært, Margrét kom langt niður og sótti boltann og gaf hann á Vönju sem tók bakvörðinn á, átti góða fyrirgjöf á Nínu sem snéri af sér varnarmanninn og lagði boltann í markið, ótrúlega vel að verki staðið! Á 60.mínútu fór Guðný útaf fyrir Rakeli . Stjarnan fékk síðan tvö góð færi, fyrst komst Harpa ein í gegn en Sif náði að hlaupa hana uppi og loka fyrir skotið og seinna færið þá komst Harpa í gott skotfæri í teignum en skot hennar var varið í stöng. Á 78. mínútu var Dagný skipt inná fyrir Margréti og Berry inn fyrir Ástu. Á sömu mínútu átti Rakel frábæra sendingu yfir vörnina á Nínu sem tók boltann niður og setti hann í fjærhornið og staðan orðin 3-0 okkur í hag. Stjarnan náði að minnka muninn á 85.mínútu og var markið ansi slysalegt en boltinn lak í gegnum miðverðina og misheppnuð tækling markmannsins fór beint í hendi Hörpu og hún komst ein að markinu og setti hann auðveldlega í markið. Við náðum að bæta við einu marki í lok leiksins og var þar fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir að verki með góðum skalla eftir fyrirgjöf Vönju frá vinstri. Lokatölur urðu því 4-1 í hörkuleik og leikjahrynunni í landsbankadeildinni lokið í bili en þetta var okkur þriðji leikur á sex dögum. Nína átti frábæran leik í dag og setti þrennu. Dóra María og Kata stóðu sig vel á miðjunni og er gaman að sjá hversu mörg návígi Dóra María er farin að vinna! Vanja stóð sig vel á kantinum og lagði upp tvö góð mörk. Pála og Fríða voru mjög góðar í miðverðinum fyrir utan smá einbeitingarleysi í lokin. Rakel átti fína innkomu og skapaði mikinn usla á kantinum og lagði upp eitt mark. Mjög góður árángur í þessum þremur leikjum samanlagt frá síðasta föstudegi, 3 leikir, 9 stig, 19 mörk skoruð og 1 skorað á okkur..nokkuð gott:) Nú getum við farið sáttar í Evrópukeppnina en það kemur mun meira um það síðar!
Liðið í kvöld: Gugga, Sif, Fríða, Pála, Ásta(Berry 67.), Vanja, Dóra María, Kata, Guðný (Rakel 60.) Nína og Margrét (Dagný 67.)

miðvikudagur, ágúst 01, 2007

Stjarnan - Valur á morgun!! 


Á morgun, fimmtudaginn 2.ágúst, förum við í heimsókn í Garðarbæinn og spilum á móti Stjörnunni á Stjörnuvelli (gervigrasinu...) klukkan 19.15. Stjarnan er sem stendur í 5.sæti deildarinnar með 12 stig. Við viljum hvetja alla til að kíkja í Garðabæinn annað kvöld og styðja okkur til sigurs í leiknum! ÁFRAM VALUR!!!

*Á sama tíma er Þór/KA - Keflavík
*Í kvöld er KR - Breiðablik kl. 17,30

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow