<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 03, 2007

4-1 sigur í kvöld!!! Nína með þrennu... 


Í kvöld spiluðum við á móti Stjörnunni í Garðabænum á gervigrasinu þeirra. Það tók okkur dágóðan tíma að venjast gervigrasinu enda ekki búnar að snerta gervigras síðan einhvern tíman snemma í maí. Stjörnustúlkur byrjuðu leikinn að krafti og sköpuðu sér nokkur hálffæri sem voru samt nokkuð hættulítil. Smátt og smátt tókum við síðan öll völd á vellinum og sköpuðum okkur þónokkur færi en það var Nína Ósk sem braut ísinn þegar hún skoraði framhjá Söndru markverði úr vítateig eftir góða sendingu frá Margréti. Við fengum nokkur dauðafæri í viðbót í fyrri hálfleik, einu sinni björguðu stjörnustúlkur á línu eftir skalla frá Fríðu eftir hornspyrnu og einu sinni komst Guðný í gott færi sem Sandra markvörður varði vel í horn. Staðan var 1-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés. Fyrri hálfleikurinn var í heildina ágætur þó við hefðum nú mátt vera búnar að skora nokkur í viðbót, Dóra María vann gríðarlega vel á miðjunni og Vanja var mjög ógnandi á vinstri kantinum. Í seinni hálfleik héldum við áfram yfirburðum á vellinum á meðan Stjarnan átti nokkrar skyndisóknir. Annað mark leiksins var ótrúlega vel útfært, Margrét kom langt niður og sótti boltann og gaf hann á Vönju sem tók bakvörðinn á, átti góða fyrirgjöf á Nínu sem snéri af sér varnarmanninn og lagði boltann í markið, ótrúlega vel að verki staðið! Á 60.mínútu fór Guðný útaf fyrir Rakeli . Stjarnan fékk síðan tvö góð færi, fyrst komst Harpa ein í gegn en Sif náði að hlaupa hana uppi og loka fyrir skotið og seinna færið þá komst Harpa í gott skotfæri í teignum en skot hennar var varið í stöng. Á 78. mínútu var Dagný skipt inná fyrir Margréti og Berry inn fyrir Ástu. Á sömu mínútu átti Rakel frábæra sendingu yfir vörnina á Nínu sem tók boltann niður og setti hann í fjærhornið og staðan orðin 3-0 okkur í hag. Stjarnan náði að minnka muninn á 85.mínútu og var markið ansi slysalegt en boltinn lak í gegnum miðverðina og misheppnuð tækling markmannsins fór beint í hendi Hörpu og hún komst ein að markinu og setti hann auðveldlega í markið. Við náðum að bæta við einu marki í lok leiksins og var þar fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir að verki með góðum skalla eftir fyrirgjöf Vönju frá vinstri. Lokatölur urðu því 4-1 í hörkuleik og leikjahrynunni í landsbankadeildinni lokið í bili en þetta var okkur þriðji leikur á sex dögum. Nína átti frábæran leik í dag og setti þrennu. Dóra María og Kata stóðu sig vel á miðjunni og er gaman að sjá hversu mörg návígi Dóra María er farin að vinna! Vanja stóð sig vel á kantinum og lagði upp tvö góð mörk. Pála og Fríða voru mjög góðar í miðverðinum fyrir utan smá einbeitingarleysi í lokin. Rakel átti fína innkomu og skapaði mikinn usla á kantinum og lagði upp eitt mark. Mjög góður árángur í þessum þremur leikjum samanlagt frá síðasta föstudegi, 3 leikir, 9 stig, 19 mörk skoruð og 1 skorað á okkur..nokkuð gott:) Nú getum við farið sáttar í Evrópukeppnina en það kemur mun meira um það síðar!
Liðið í kvöld: Gugga, Sif, Fríða, Pála, Ásta(Berry 67.), Vanja, Dóra María, Kata, Guðný (Rakel 60.) Nína og Margrét (Dagný 67.)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow