<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, ágúst 18, 2007

9-0 Stórsigur í Keflavík 

Í dag spiluðum við ellefta leik okkar í deildinni í blíðskaparveðri í Keflavík á virkilega góðum grasvelli og öll aðstaða suður með sjó til fyrirmyndar. Dagurinn hófst með rútuferð frá Valsheimilinu en liðið virðist alltaf spila betur eftir rútuferðir. Við byrjuðum leikinn ekkert sérstaklega vel en sköpuðum okkur þónokkur færi sem serbneski markvörðurinn Jelena Petrovic varði öll flest. Á 21.mínútu urðum við fyrir áfalli þegar Vanja var borinn meidd af velli en hún fékk hné í höfuðið á sér og vankaðist alvarlega við það og var flutt með sjúkrabíl enda tekur maður ekki séns á svona meiðslum. Nína kom inná í hennar stað og hún átti svo sannarlega eftir að láta til sín taka. Á 27.mínútu rufum við síðan varnarmúr Keflvíkinga. Kata átti skot að marki sem fór í varnarmann og þaðan til Margrétar í teignum sem setti boltann laglega í hornið. Eftir þetta opnuðust allir flóðgáttir. Kata skoraði eftir fyrirgjöf frá vinstri annað mark okkar í leiknum, skömmu áður hafði hún átt góða tilraun til hjólhestaspyrnu sem mislukkaðist þó. Aðeins þremur mínútum síðar eða á 35.mínútu skoraði Guðný þegar hún kom askvaðandi á fjærstöng og renndi boltanum í netið eftir frábært samspil upp völlinn. Nína skoraði síðan fjórða mark okkar á 39.mínútu en á þessum tímapunkti voru keflvíkingar spilaðir sundur og saman. Margrét skoraði síðan mínútu síðar þegar Rakel átti fyrirgjöf frá vinstri og serbneski markvörðurinn missti boltann beint í fætur Margrétar sem átti ekki erfitt með að renna boltanum inn. Á 44.mínútu var síðan dæmd vítaspyrna, Guðný var í baráttu í teignum og boltinn fór í hendina á varnarmanni keflvíkinga. Víti var dæmt sem Margrét tók og skoraði örugglega, staðan var því orðin 6-0. Við náðum að bæta við öðru marki fyrir leikhlé en Keflavíkurliðið virtist enn vera að svekkja sig á fyrri mörkum og sofnuðu á verðinum, Margrét fékk góða sendingu innfyrir, tók boltann á kassann og renndi boltanum í hornið fjær. ÓTRÚLEGUR 20.mínútna kafli hjá okkur, en við skoruðum semsagt 7 mörk á þessum tíma. Í hálfleik fór Berry útaf fyrir Fríðu sem kom inn djúp á miðju. Dóra María var færð í bakvörð en hún hefur prófað flestar stöður í undanförnum leikjum. Við róuðumst aðeins í seinni hálfleik en færin létu þó ekki á sér standa. 8. mark leiksins kom eftir langt útspark úr markinu inn fyrir vörnina og Margrét kominn ein í gegn og gerði þetta laglega og staðan því 8-0. Á 71.mínútu kom Linda inná í hægri bakvörð og Kata fór útaf. Síðasta mark leiksins kom úr vítaspyrnu á 86.mínútu þegar Dóra María var felld innan teigs og réttilega dæmt víti. Margrét skoraði örugglega úr spyrnunni og innsiglaði 9-0 stórsigur á Keflavík. Í seinni hálfleik voru nýjir hlutir prófaðir en Sif fór í senterinn og var óheppin að setja ekki 1-2 mörk. Pála hefur verið að koma inní í hornum og var virkilega hættuleg en markvörður Keflvíkinga náði að verja 2x vel frá henni. Dóra María hefur verið að spila FRÁBÆRLEGA fyrir liðið og er hreint sorglegt að þetta hafi verið hennar síðasti leikur með Val þetta árið en hún fer fljótlega aftur til USA þar sem skólinn býður hennar.
9-0 frábær sigur í höfn, Keflavík sá aldrei til sólar, sköpuðu sér nokkur hálffæri sem vörnin átti ekki í vandræðum með og við vorum virkilega hættulegar frammávið og settum 9 stykki í dag. Frábær endir á þessari leikjahrynu en nú er kærkomið “smá-frí” eftir evrópukeppnina og deildarleik þar sem það er landsleikur í næstu viku og frí í deildinni. (og við ekki lengur í VISA-bikarnum...)
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Sif, Guðný, Kata (Linda 71.) Vanja (Nína 21.) Dóra María, Rakel, Hallbera(Fríða 46.) og Margrét Lára.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow