mánudagur, ágúst 18, 2008
3-2 tap gegn KR
Leikurinn í gær einkenndis í byrjun af smá stressi og baráttu og hvorugt liðið náði að halda boltanum mikið innan síns liðs. Fyrsta mark leiksins skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir þegar hún slapp í gegnum vörn KR eftir langa sendingu frá Sif Atladóttur. Bæði Rakel og Dóra María hefðu getað bætt við en tókst ekki að nýta sín færi. KR fékk að sama skapi nokkur hálffæri í fyrri hálfleik en náði ekki að skora og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Í seinni hálfleik komu KR-ingar grimmari en við til leiks og náðu að jafna í 1-1 eftir mistök í vörninni hjá okkur. Hólmfríður Magg vann þá boltann af Ástu og skoraði örugglega. Þá gerðu þjálfararnir tvöfalda skiptingu þegar Hallbera og Helga komu inná í staðinn fyrir Rakel og Sophie. Skiptingin átti greinilega eftir að hafa góð áhrif á liðið því Hallbera kom sér í nokkur mjög góð færi og skoraði úr einu þeirra stórglæsilegt mark og kom okkur í 2-1.
Eftir markið kveiknaði loksins í okkur og við hefðum klárlega getað bætt við mörkum. Margrét lyfti boltanum framhjá marki KR í dauðafæri og strax í næstu sókn jafnaði KR. Þá áttu þær langan bolta inná teig eftir aukaspyrnu og miðvörðurinn Guðrún Sóley skoraði eftir klafs og staðan orðin jöfn 2-2.
Það voru síðan KR ingar sem kláruðu leikinn 3-2 en þær fengu vítaspyrnu þegar Ásta braut á Hólmfríði Magg, Olga Færseth fór á vítapunktinn en Randi Wardum varði glæsilega en boltinn datt beint til Olgu sem fylgdi á eftir og tryggði KR 3 stig.
Fyrsti tapleikur sumarsins staðreynd en við sitjum sem áður í efsta sæti deildarinnar með pálmann í höndunum og höfum alla burði til að tryggja okkur íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.
Liðið: Randi, Ásta, Pála, Sif, Vanja, Rakel (Hallbera), Sophia (Helga Sjöfn), Katrín, Fríða (Kristín Ýr), Dóra María og Margrét Lára.
Comments:
Skrifa ummæli