<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 04, 2007

Ótrúlegur 11-0 sigur í kvöld!! 

Fæstir bjuggust við því að mikil markasúpa yrði í kvöld, þar sem Fjölnisliðið er þekkt fyrir gríðarlega baráttu og þéttan varnarleik en við hreinlega yfirspiluðum lið Fjölnis sem vissu vart hvort þær voru að koma eða fara og leikurinn endaði með þeim ótrúlegu tölum 11-0! Það var mikið rok og frekar kalt í veðri þegar dómari leiksins flautaði leikinn á í kvöld. Við byrjuðum að spila á móti vindi og skoraði Nína fljótlega mark sem að því er virtist löglegt, en dómarinn tók þá furðulegu ákvörðun að dæma hana rangstaða eftir að hún sjálf skaut í stöng og fylgdi á eftir. Rakel Loga skoraði því fyrsta markið sem var dæmt gilt á 26.mínútu.
Annað mark leiksins var stórglæsilegt. Á 30.mínútu keyrði Guðný upp vinstri kantinn og átti frábæra sendingu beint á kollinn á Margréti sem skallaði boltann í bláhornið og staðan 2-0. Rakel og Margrét áttu síðan báðar eftir að bæta við mörkum áður en flautað var til leikhlés. Rakel skoraði eftir stórkostlega sendingu frá Kötu (sem er dugleg að leggja upp þessa dagana) gegnum vörnina en hún náði að pota í boltann áður en markvörður Fjölnis náði til hans. Margrét skoraði af stuttu færi eftir klafs í teignum á 44.mínútu. Vanja hafði líka skorað eitt mark eftir frábært spil upp völlinn en hún var rangstæð og markið því dæmt af. Fjölnir átti ekki mikið í fyrri hálfleik en fékk þó eitt gott færi strax á upphafsmínútum en skot þeirra fór yfir markið.
Staðan var því 4-0 þegar leikmenn gegnu til búningsherbergja og var Elísabet Gunnarsdóttir nokkuð sátt með gang mála.
Í seinni hálfleik spiluðum við með vindinn í bakið og komst þá Fjölnir vart yfir miðju. Fyrsta mark seinni hálfleiks og það fimmta í leiknum kom á 54.mínútu eftir að Guðný tók stutt horn á Margréti sem skaut og skoraði. Strax mínútu síðar keyrði Rakel upp hægri kantinn og skoraði með frábæru skoti í þaknetið og staðan orðin 6-0. Tveimur mínútum síðar eða á 57.mínútu áttum við frábært spil upp völlinn sem endaði með því að Margrét komst ein innfyrir og hún gerði allt rétt og smellti boltanum niðri í hægra hornið. Minnstu munaði að Margrét næði að skora aftur eftir stutta hornspyrnu en boltinn small í þverslánni og yfir.
Á 58.mínútu komu Linda og Dagný inná fyrir Pálu og Sif. Á 70.mínútu fékk Fríða boltann á miðjunni, hún keyrði að markinu, sólaði tvær og smellti boltanum með vinstri niðri í hægra hornið og staðan orðin 8-0. Á 76. mínútu fengum við hornspyrnu sem Margrét tók, hún sendi boltann fyrir beint á kollinn á Kötu sem stangaði hann í netið!
Á 80.mínútu kom Hallbera inn fyrir Ástu, en við breyttum í þriggja manna vörn, þar sem Fjölnisstúlkur komust lítið áleiðis fram völlinn. Á 83.mínútu skoraði átti Vanja góða fyrirgjöf á Nínu sem kom með hlaupið á nær og skoraði örugglega. Á 86. mínútu fengum við síðan vítaspyrnu eftir að Margrét átti skot að marki sem var varið með hendi af varnarmanni Fjölnis. Leikmaðurinn fékk umsvifalaust að líta rauða spjaldið þótt okkur hafi nú alveg fundist nóg að fá bara vítið. Nína tók vítið að þessu sinni og skoraði örugglega.
Hreint út sagt ÓTRÚLEGUR leikur og svakalegar lokatölur. Fjölnir átti varla færi í leiknum fyrir utan færið í byrjun en annars áttum við leikinn frá upphafi til enda. Samstaðan í liðinu var hreint mögnuð og virðist engu máli skipta hver er inná vellinum því það var aldrei neitt gefið eftir og sama hvað staðan var. Við náðum hreinlega að yfirspila lið Fjölnis sem hefur verið þekkt fyrir að gefast aldrei upp en það má segja að þær hafi bara aldrei séð til sólar í dag. Rakel var mögnuð á kantinum og skoraði 3 stykki og Margrét drjúg í senternum með fjögur. Nína skoraði 3 líka en bara 2 skv. dómaranum sem ákvað að dæma eitt af.....
Vörnin stóð sig frábærlega og fékk varla á sig færi og enn einu sinni í sumar héldum við hreinu!!
Liðið: Gugga, Ásta (Hallbera 80.) Pála (Linda 58.), Sif (Dagný 58.), Guðný, Fríða, Kata, Vanja, Nína, Rakel og Margrét.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow