laugardagur, september 01, 2007
6-0 frábær sigur á breiðabliki, erfiður völlur í kvöld...
Undanfarna daga hefur rignt gríðarlega mikið og ber þess greinilega ummerki á Valbjarnarvelli. Það voru risa pollar vítt og breitt um völlinn sem áttu eftir að gera leikmönnum beggja liða einkar erfitt fyrir. Beta þurfti ekki að gera mikið meira en að stilla upp liði fyrir leikinn og minna á andrúmsloftið inní klefa eftir bikarleikinn til að koma okkur í gírinn. Við vorum svo sannarlega staðráðnar í að hefna fyrir ófarirnar í bikarnum og Rakel Loga skoraði fyrsta markið eftir um 2,5 mínútur og markasúpan rétt að byrja. (Leikmenn byrjuðu svo sannarlega á fyrstu mínútu en ekki á 46.mín eins og í bikarnum;) Við vorum í raun með öll tök á vellinum og sköpuðum okkur slatta af færum sem hefðu mátt nýtast betur. Rakel fékk eitt frábært færi þegar hún komst alein í gegn eftir stórbrotna sendingu frá Kötu en skaut rétt framhjá markinu. Bestu færi Breiðabliks voru eftir föst leikatriði og sluppum við einu sinni með skrekkinn þegar Guðrún Sóley fékk gott skotfæri sem var varið af stuttu færi. Á 38.mínútu komst Margrét í gott skotfæri hægra megin í teig blikastúlkna og átti ágætt skot að marki sem þeyttist meðfram rennandi blautu grasinu og boltinn söng í netinu. Skömmu áður komst Guðný í dauðafæri eftir frábært spil hjá okkur en þvi miður hitti hún boltann illa og boltinn lak framhjá markinu. Hún bætti svo sannarlega fyrir það á 41.mínútu þegar hún keyrði upp vinstra megin á miðjunni og átti frábært skot uppi í hægra markhornið af 20 metra færi og skoraði glæsilegt mark. Staðan var því 3-0 í hálfleik þegar leikmenn gengu rennandi blautir af velli. Í seinni hálfleik vorum við með markið fjær þróttarahúsinu en rétt fyrir utan okkar vítateig voru svakalegir pollar sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á leikinn. Seinni hálfleikurinn byrjaði mun rólegari heldur en sá fyrri og áttu leikmenn erfitt með að spila boltanum sín á milli þar sem annað hvort skoppaði boltinn og þeyttist út um allt, eða snarstoppaði í einum af fjölmörgum pollum á vellinum. Við spiluðum þéttan varnarleik og sköpuðum okkur nokkur góð opin marktækifæri á meðan blikarnir voru heldur bitlausir í framlínunni og komust ekki í neitt teljandi opið marktækifæri. Á 62.mínútu komu Nína og Thelma Björk inná fyrir Hallberu og Vönju, síðan á 68.mín fór Sif útaf fyrir Thelmu Ýr. Á 81.mínútu fengum við innkast hægra megin alveg niðri nálægt okkar marki og blikarnir eitthvað ósáttir við það og gleymdu sér í pirringi, við skildum 3-4 leikmenn bara eftir, keyrðum upp völlinn sem endaði með því að Nína komst ein í gegn, sólaði Petru markvörð blika og renndi boltanum í netið! Á 85. mínútu voru blikar aftur í sókn en brutu á Guðný og aukaspyrna réttilega dæmd rétt fyrir utan teig, blikarnir svekktu sig á því og tautuðu í dómaranum á meðan Gugga tók boltann strax og gaf á Thelmu sem var alein á vinstri kantinum, hún keyrði með boltann og gaf á Nínu sem var komin ein í gegn aftur og sólaði aftur Petru markmann og staðan orðin 5-0! Síðasta mark leiksins skoraði síðan Margrét Lára úr vítateignum, fékk góða sendingu yfir vörnina og kláraði færið með stæl! Staðan 6-0 í leikslok! Hreint út sagt frábær 6-0 sigur og varla hægt að biðja um meira miðað við þær aðstæður sem voru í kvöld. Völlurinn var virkilega erfiður og að cirka út hvernig boltinn skoppaði var álíka erfitt og að reikna út erfitt tölfræði II dæmi! Sérstaklega í kringum miðjuna og á vallarhelmningnum okkar í seinni hálfleik. Vörnin stóð sig virkilega vel, sérstaklega miðvarðarparið, Ásta og Pála sem stoppuðu ófáar sóknir blikanna. Pála átti einmitt eina stórglæsilega tæklingu þegar Guðrún Sóley var sloppin ein í gegn. Guðný átti mjög góðan leik og virðist engu máli skipta hvar á vellinum hún er látin spila. Kata vann gríðarlega vel á miðjunni en hún vann nánast alla skallabolta sem komu nálægt henni. Nína átti gjörsamlega FRÁBÆRA innkomu og skoraði 2 góð mörk, og Thelmurnar tvær hleyptu nýju lífi í sóknarleikinn en þær komu mjög ferskar inn. Frábært þegar leikmenn af bekknum koma jafnferskar inn eins og þær gerðu í dag! Kristinn Jakobsson var dómari leiksins og stóð hann sig virkilega vel, munar öllu þegar dómarinn er góður! Annars var þetta frábær sigur þar sem allir lögðu sig virkilega vel fram og liðsheildin klárlega sem skóp þessi þrjú stig!! Að lokum vil ég fyrir hönd liðsins þakka áhorfendum fyrir komuna, þrátt fyrir mikla rigningu og þá sérstaklega trommurunum sem létu svo sannarlega vel í sér heyra, ÞIÐ VORUÐ FRÁBÆR!!
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Hallbera (Thelma Björk 62.), Sif (Thelma Ýr 68.), Fríða, Kata, Guðný, Vanja (Nína 62.), Rakel og Margrét.
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Hallbera (Thelma Björk 62.), Sif (Thelma Ýr 68.), Fríða, Kata, Guðný, Vanja (Nína 62.), Rakel og Margrét.
Comments:
Skrifa ummæli