<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 14, 2007

4-2 stórkostlegur sigur á KR-velli! 

Það verður að viðurkennast að leikmenn voru örlítið stressaðri fyrir þennan leik en aðra fyrri leiki enda gríðarlega mikið í húfi.. Íslandsmeistaratitillinn. Það má segja að KR hafi átt fyrstu 10 mínúturnar í leiknum en fleira áttu þær ekki. Strax á 7.mínútu skoraði Hrefna Jóhannesdóttir ótrúlegt mark með gríðarlegu harðfylgi en markið kom eftir röð mistaka sem byrjaði hjá markmanni. Eftir markið þá sameinuðust leikmenn í einu orði: GLEYMA. Það var ekki séns að KR væri að fara að fá eitthvað útur þessum leik, og hvað þá 3 stig eins og staðan var þarna. Katrín fyrirliði Jónsdóttir fór fyrir liði sínu og jafnaði leikinn á 23.mínútu eftir frábæra fyrirgjöf frá Rakel Loga sem var færð yfir á hægri kantinn stuttu áður. Skömmu áður hafði markvörður KR varið vel frá Rakeli og KR-vörnin bjargað á marklínu eftir skot Margrétar þannig það er ekki hægt að segja annað en að markið hafi legið í loftinu. Á 32.mínútu sofnaði KR vörnin heldur betur á verðinum. Hólmfríður var dæmd rangstæð og KR enn að pirra sig á því þegar Gugga tók boltann og þrumaði honum yfir vörnina sem missti boltann yfir sig, Margrét komst ein í gegn og kláraði í einni nettri snertingu og við komnar í 2-1 við gríðarlegan fögnuð viðstaddra! Staðan var 2-1 í hálfleik.
Í hálfleik vorum við sannfærðar um að vinna sigur á KR á þeirra heimavelli og ekki inní myndinni að fara að slaka eitthvað á! Vindurinn spilaði gríðarlega stóran þátt í þessum leik, í fyrri hálfleik byrjuðum við með vindinn í bakið en nú var komið að okkar að verjast þessum strekkingsstormi.
KR hóf stórskotahríð að marki, en flest þeirra skot voru ómarkviss og yfirleitt langt framhjá. Engin veruleg hætta skapaðist fyrir framan okkar mark þó að KR hafi sótt nær allan hálfleikinn. Vindurinn var það svakalegur að undirituð man ekki eftir öðru eins, dreyf varla útur eigin teig! Á 59.gerði Beta breytingu á liðinu sem hafði gríðarlega góð áhrif á liðið, Rakel sem var búin að keyra sig út fór útaf fyrir efnilegasta leikmann Íslands í dag, Dagný Brynjarsdóttur. Hún var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn en aðeins 7 mínútum síðar keyrði hún í sókn með Margréti sem renndi boltanum út á hana eftir að hafa spænt upp hægri kantinn og Dagný kom okkur í 3-1! Við vorum ennþá að fagna markinu þegar KR-ingar geystust í sókn og Hrefna Jóhannesdóttir sem hefur reynst okkur afar erfið skoraði strax og minnkaði muninn í 3-2. Markið verður að skrifast á einbeitingarleysi liðsins inná vellinum sem var enn að fagna með Dagnýju. Nú voru rúmlega 20 mínútur eftir af leiknum og spennan gríðarleg. KR ingar bættu í sóknarleikinn og voru orðnar fáliðaðar baka til. Þær komust þó lítið áleiðis gegn vel skipulagðri vörn okkar. Hálf örvæntingarfull skot utan af velli var eiginlega það eina sem þær reyndu, en þær áttu erfitt með að spila í svakalegum vindinum. Hrefna Jóhannesdóttir kom sér þó í nokkur ágætisfæri uppá eigin spýtur en hún var ein af 3-4 leikmönnum KR sem sýndi einhvern vilja til að vinna leikinn eftir að þær höfðu lennt undir. Hólmfríður Magnúsdóttir komst í dauðafæri á 88.mín en skot hennar var varið og ein af fjölmörgum hættulegum hornspyrnum KR-inga var dæmd. Það var síðan í uppbótartíma að Margrét Lára fékk sendingu innfyrir og gjörsamlega lék sér að miðvarðarpari KR. Fyrst komst hún framhjá hini eitilhörðu Aliciu og síðan lék hún sér að Agnesi og renndi boltanum síðan laglega í markið! Staðan orðin 4-2 og vonir KR um Íslandsmeistaratitil þetta árið nánast úr sögunni. Einhverjir KR-ingar vildu meina að Margrét hafi verið rangstæð en þær þurfa aðeins að glugga betur í reglur rangstæðunnar þar sem Margrét var klárlega á okkar vallarhelming þegar sendingin kom og hefði því rangstæða verið alvarlega rangur dómur. Sigurinn í gærkvöldi var einn sá sætasti sem við Valsmenn munum eftir en að nánast tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á KR velli er ólýsanleg tilfinning og frábært að upplifa þetta. Katrín Jónsdóttir fyrirliði liðsins var hreint út sagt MÖGNUÐ í þessum leik, hún gjörsamlega stýrði liði sínu til sigurs, sérstaklega þegar KR skoraði fyrsta markið, þá dreyf hún liðið áfram og skoraði sjálf jöfnunarmarkið auk þess sem hún vann gjörsamlega öll návígi sem hún fór í. Fríða og Vanja voru einnig frábærar við hlið hennar og vil ég meina að leikurinn hafi unnist á miðjunni. Vörnin spilaði gríðarlega vel og gaf fá færi á sér og var langt frá því að eiga í erfiðleikum með sóknarlínu KR inga þótt að mörkin tvö sem við fengum á okkur væru af ódýrari gerðinni. Margrét kláraði leikinn fyrir okkur en hún er að kóróna frábært tímabil sitt með MARKAMETI annað árið í röð og sannar enn og aftur að hún er besti senter þessa lands og þótt víða væri leitað. Dagný átti magnaða innkomu, sýndi engum virðingu og fór strax á fullu í allar tæklingar og skoraði síðan eitt mark. Þetta var einn mesti liðssigur sem liðið hefur unnið og ekki má gleyma þætti þjálfaranna sem voru búnir að stúdera KR-liðið í tætlur enda gekk KR nánast ekkert áleiðis í leiknum. Katrín var fremst meðal jafningja í gærkvöldi en það er samt hægt að segja að hver einasti leikmaður sem tók þátt í leiknum átti frábæran dag! Nú má segja að við séum nánast búnar að tryggja okkur Íslandsmeistaratitilinn í þriðja sinn á fjórum árum sem lýsir því hversu magnaður Vals-kjarninn er í þessu liði! Betra liðið sigraði leikinn!
Liðið: Gugga, Hallbera, Ásta, Pála, Sif, Vanja, Fríða, Kata, Rakel (59.Dagný) Guðný og Margrét.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow