laugardagur, september 08, 2007
3-0 sigur á Fylki!
Í gærkvöldi tókum við á móti Fylki á Valbjarnarvelli en leikurinn fór fram við fremur erfiðar aðstæður, mjög laus völlur og mikil bleyta. Liðið var eins upp stillt eins og í síðasta leik enda óeðlilegt að skipta um lið eftir 11-0 sigur í síðasta leik. Við byrjuðum ekki alveg nógu sannfærandi og gekk illa að halda boltanum innan liðsins. Einfaldar sendingar voru að klikka en það má samt eiginlega skrifa það á hræðilegan völlinn. Smátt og smátt tókum við völd á vellinum og komust Margrét, Rakel og Nína allar í góð færi og hefðu vel getað skorað. Fyrsta mark leiksins kom þó ekki fyr en á 35.mínútu en brotið var á Margréti innan teigs og umsvifalaust dæmd vítaspyrna. Margrét fór sjálf á vítapunktinn og skoraði örugglega. Aðeins sex mínútum síðar eða á 41.mínútu fékk Margrét boltann út á velli, keyrði að markinu og skaut af um 30 metra færi niðri í vinstra hornið og boltinn söng í netinu. Staðan orðin 2-0. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik þrátt fyrir nokkur góð færi í viðbót. Helstu sóknarlotur Fylkis í fyrri hálfleiknum voru eftir skyndisóknir en þær fengu þó ekki neitt teljandi dauðafæri. Í hálfleik var Beta ekkert alltof sátt með liðið enda nánast hver einasti leikmaður ekki að ná að sýna sitt besta. Við byrjuðum seinni hálfleikinn að krafti og sköpuðum okkur strax nokkur marktækifæri en náðum ekki að nýta þau. Siðan virtist mikil þreyta vera komin í liðið og virtust leikmenn vera “saddir” við stöðuna sem upp var komin. Það vantaði alvarlega meiri ógnun frá vængmönnunum sem náðu engan vegin að sýna sama leik og á móti Fjölni. Á 70. mínútu voru Rakeli og Vönju báðum skipt útaf fyrir Dagný og Hallberu. Miðjan náði sér heldur ekki á strik því miður, og alltof margar stungur fengu að koma frá miðjumönnum Fylkis, en sóknarmenn Fylkis voru síðan nánast alltaf rangstæðar þannig við sluppum með þetta. Á 75.mínútu var Guðnýju skipt útaf fyrir Thelmu. Varnarlega spiluðum við vel og fengum ekki á okkur mark en við hefðum klárlega getað spilað boltanum betur frá okkur. Á 88.mínútu áttum við að fá aðra vítaspyrnu þegar Margrét komst í gegn eftir frábæra sendingu frá Hallberu, Margrét var gjörsamlega straujuð í teignum en ekkert dæmt. Síðasta mark leiksins kom síðan á 91.mínútu þegar við fengum aukaspyrnu út á kanti. Margrét tók spyrnuna og gerði sér lítið fyrir og skoraði utanfótar með hægri á nærstöng, stórglæsilegt skot! Lokatölur urðu því 3-0 og leikmenn frekar þreyttir í leikslok eftir þrjá leiki á einni viku (plús eina ógeðisæfingu). Frammistaðan aðeins slakari í gærkvöldi en í undanförnum leikjum en það er mjög eðlilegt vegna leikjaálags og þreytu. Sigurinn var þó í rauninni aldrei í neinni hættu og þrjú mikilvæg stig komin í hús! Margrét Lára á hrós skilið fyrir að taka af skarið þegar á þurfti og má segja að hún hafi klárað leikinn fyrir okkur með mörkunum þremur. Vörnin fær einnig hrós fyrir mjög góðan varnarleik þótt að sóknarlega hefðum við getað gert betur.
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Sif, Guðný (Thelma 75.), Kata, Fríða, Vanja (Hallbera 70.), Rakel (Dagný 70.), Nína og Margrét.
Liðið: Gugga, Ásta, Pála, Sif, Guðný (Thelma 75.), Kata, Fríða, Vanja (Hallbera 70.), Rakel (Dagný 70.), Nína og Margrét.
Comments:
Skrifa ummæli