<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júní 09, 2007

4-1 karaktersigur í höfn! 

Í kvöld sigruðum við Keflavík með fjórum mörkum gegn einu í hörkuleik á Valbjarnarvelli. Við spiluðum alhvítar þar sem ennþá er eitthvað prent-vesen á aðalbúningum liðsins. Leikurinn fór ekki vel af stað þegar Rakel fór meidd af velli á nánast upphafsmínútu leiksins en Kata og Linda voru heldur ekki með vegna meiðsla.
(Eins og sjá má á mynd þótti Kötu mun meira stressandi að vera utan vallar en innan vallar og átti mjög erfitt með að sitja kjur..)
Í hennar stað kom Hallbera í skyndi inná völlinn. Strax á fimmtu mínútu náði Keflavík að skora hjá okkur einkar klaufalegt mark, Guðný Keflvíkingur náði að komast framhjá Ástu, pota boltanum undir Guggu og inn rúllaði boltinn löturhægt án þess að við náðum að hreinsa hann í burtu. Við hresstumst reyndar mikið við markið og náðum loksins að komast uppá tærnar og byggja upp almennilegar sóknir. Jöfnunarmark okkar kom á 11.mín þegar Margrét komst í gegn vinstra megin í teignum, renndi boltanum á Guðný sem setti boltann í netið og staðan orðin 1-1. Vanja kom okkur síðan í 2-1 á 25.mín þegar Hallbera vann boltann og átti frábæra sendingu inn fyrir á Vönju sem keyrði upp völlinn og kláraði færið laglega. Staðan var 2-1 í hálfleik en hún hefði þó getað verið mikið betri en góður markvörður Keflavíkur varði oft frábærlega frá okkar stúlkum. Beta gerði nokkuð róttækar mannafærslur innan liðsins í hálfleik og mun einbeittara lið fór út í seinni hálfleikinn. Við byrjuðum seinni hálfleikinn á svipuðum nótum og við enduðum þann fyrri og sóttum stíft á meðan keflavíkurstúlkur beittu skyndisóknum og sköpuðu oft mikinn usla fyrir framan okkar mark. Þriðja mark okkar kom eftir hraða sókn á 59.mínútu en Keflavík hafði átt hornspyrnu sem við náðum að verjast geystumst upp völlinn sem endaði með því að Nína komst í gegn, sólaði markvörð Keflvíkinga og lagði boltann í markið og staðan orðin 3-1. Fjórða og síðasta mark leiksins var stórglæsilegt, á 64.mín átti Dóra María stórkostlega sendingu yfir vörn Keflavíkur og Margrét Lára lyfti boltanum viðstöðulaust yfir markvörðinn. Beta gerði síðan tvöfalda skiptingu þegar hún tók Nínu og Sif útaf fyrir Önnu Garðars og Thelmu.
Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og lokatölur því 4-1. Í heild má segja að mikill karakter-sigur hafi unnist þar sem Keflavíkurstúlkur byrjuðu leikinn betur og komust yfir en við náðum að rífa okkur upp og klára leikinn nokkuð sannfærandi. Vanja átti virkilega góðan leik í dag og hún náði hvað eftir annað að komast framhjá bakverði Keflavíkur og skoraði auk þess eitt mark í kvöld. Við vorum svolítið að tapa miðjunni í fyrri hálfleik, þó aðallega skallaboltunum en það stórbatnaði í seinni hálfleik. Dóra María átti fullt af mjög góðum rispum og átti hvað eftir annað frábærar sendingar á samherja sína meðal annars þegar Margrét skoraði fjórða markið. Margrét átti einnig góðan leik en hún var dugleg í að byggja upp spil og skoraði auk þess eitt gott mark. Nína er svo sannarlega aftur að komast í markagírinn og hefur hún núna skorað í öllum leikjum sem af er. Virkilega mikilvægur sigur í höfn og þrjú ný stig komin í hús!
Liðið: Gugga, Ásta,Pála, Sif(Anna), Guðný, Fríða, Nína (Thelma) Rakel (Hallbera), Dóra María, Vanja og Margrét
Nú kemur aftur smá pása vegna landsleikja og er töluvert langt í næsta leik en meira um það síðar!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow