<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, apríl 21, 2007

11-0 Stórsigur á Stjörnunni!!!!!! 

Í kvöld spiluðum við gegn Stjörnunni á þeirra heimavelli i Garðabænum og endaði leikurinn með þessum rosalegu tölum 11-0. Í fyrri hálfleik spiluðum við á móti nokkuð sterkum vindi og í byrjun leiks sýndi Stjarnan mikla hörku og baráttu og virtist ekkert ætla að gefa eftir. Fljótlega í leiknum fengum við aukaspyrnu sem Sif tók inná teig, boltinn fór beint í hendi varnarmanns Stjörnunnar og réttilega dæmd vítaspyrna. Margrét Lára tók spyrnuna og skoraði af öryggi og staðan orðin 1-0. Annað mark leiksins kom eftir ótrúlega gott spil, Margrét var með boltann og átti góða sendingu inn fyrir á Nínu sem keyrði upp kantinn og átti hreint frábæra sendingu fyrir markið sem Vanja kláraði vel og staðan orðin 2-0. Þriðja mark leiksins var að svipaðri gerð nema í þetta sinn var það Hallbera sem kláraði eftir góða sendingu aftur frá Nínu sem spilaði hægra megin í kvöld. Fjórða mark leiksins skoraði síðan fyrirliðinn okkar Dr.K með ágætu skoti utan teigs sem sveif í slá og inn við mikinn fögnuð viðstaddra!
Hendurnar á stjörnustúlkum voru aftur eitthvað að væflast fyrir þeim inní teig en annar óheppinn varnarmaður fékk boltann greinilega í hendina og umsvifalaust var dæmd vítaspyrna sem Margrét Lára tók og skoraði aftur af miklu öryggi, nú í stönginn og inn. Staðan orðin 5-0. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fengum við síðan aukaspyrnu frá vinstri kantinum sem Margrét Lára Viðarsdóttir tók, en hún náði á ótrúlegan hátt að skora fram hjá þriggja manna varnarvegg og markverði Stjörnunnar niðri í nærhornið, hreint ótrúleg spyrna! Staðan var því 6-0 þegar liðin gengu til búningsklefa. Í hálfleik fóru Kata, Linda, Vanja og Guðný útaf fyrir, Söru, Thelmu, Björgu og Heiðu. (sem er n.b fædd 92!!!)
Strax í byrjun seinni hálfleiks var síðan markvarðarskipti þegar Ása skipti inná fyrir Guggu og stuttu síðar fóru Pála og Berry útaf fyrir Önnu Garðars og Andreu. Það má því segja að nánast algjörlega nýtt lið hafi spilað seinni hálfleikinn! Það kom alls ekki að sök því við héldum áfram að raða inn mörkunum. Sara opnaði markareikninginn í seinni hálfleik og Margrét Lára bætti við öðru marki stuttu síðar. Margrét var síðan felld innan teigs og vítaspyrna dæmd en í þetta sinn var það Nína Ósk sem fór á vítapunktinn og hún skoraði af miklu öryggi og staðan orðin 9-0! Nína skoraði síðan annað mark sitt og það tíunda fyrir Val stuttu síðar!!! Fram að þessu hafði Stjarnan vart komist yfir miðju og við unnið bókstaflega alla bolta alls staðar á vellinum. Stjarnan fékk síðan eina ágæta sókn og komst senter Stjörnunnar einn innfyrir samsíða Ástu og virtist hún flækjast um boltann og detta um sjálfa sig og dómarinn ákvað að dæma vítaspyrnu. (Sem hann viðurkenndi eftir leikinn að hafi verið tómt bull en það kom ekki að sök!) Ása Dögg gerði sér lítið fyrir og GREIP vítaspyrnuna og u.þ.b mínútu síðar var Margrét komin ein inn fyrir hinum megin og skoraði 11 mark okkar í leiknum og það má segja að við gjörsamlega völtuðum yfir stjörnustúlkur í kvöld.
Þetta var frábær leikur í alla staði og líklega sá besti sem liðið hefur spilað í mjög langan tíma. Samheldnin og vinnusemin var ótrúleg. Við pressuðum stíft allan leikinn og stjörnustúlkur fengu aldrei frið með boltann. Leikmenn fóru eftir því sem upp var lagt enda var niðurstaðan hreint út sagt stórkostlegur 11-0 sigur á Stjörnunni. Það er mjög erfitt að taka einhvern einn út og segja að hann hafi verið betri en aðrir en það má eiginlega segja að ALLIR varamenn liðsins hafi staðið sig frábærlega því það virtist engu breyta hverjir voru inná vellinum, við héldum áfram að raða á þær mörkum í öllum regnbogans litum. Frábært þegar leikmenn af bekknum koma inn með eins miklum krafti og þær gerðu í dag! Ótrúlegur sigur sem er gott veganesti fyrir liðið í komandi leikjum!
Liðið: Gugga (Ása), Pála (Anna), Ásta, Sif, Guðný (Sara), Linda (Björg), Kata(Heiða), Vanja (Thelma), Nína, Hallbera (Andrea) og Margrét Lára.

*Rakel var í fríi í kvöld en mætir endurnærð á æfingu í fyrramálið
*Fríða var meidd á læri en mætir fljótlega aftur
*Dóra María er stödd erlendis og styttist óðfluga í hana
!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow