<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 19, 2007

8-1 sigur á Fylki! 

Í gærkvöldi spiluðum við á móti Fylki í Egilshöll þar sem við gátum í fyrsta sinn valið úr öllum leikmannahópnum en Dóra María er t.a.m. á landinu í “spring break”.
Við vorum ekki lengi að skora fyrsta mark leiksins en Dóra María átti þá frábæra sendingu frá hægri á kollinn á fyrirliðanum Katríni Jóns sem skallaði boltann rakleiðis í netið. Kata skoraði einnig annað mark leiksins þegar hún komst ein í gegn og renndi boltanum snyrtilega framhjá markverðinum, aftur skoraði hún eftir mjög góðan undirbúning Dóru Maríu! Kata ætlar greinilega að halda uppteknum hætti með skallamörkin og markaskorun!
Næst var komið að Margréti Láru en hún náði að skora þrennu áður en það var flautað til hálfleiks! Fyrsta mark hennar og það þriðja í leiknum var þegar Kata vann skallabolta á miðjunni og skallaði innfyrir vörn Fylkis, Margrét komin ein í gegn og smellti honum uppí í hægra hornið.
Fjórða mark okkar kom síðan þegar við fengum aukaspyrnu frá vinstri sem Margrét Lára tók, hún skaut og markvörðurinn varði boltann en það var of seint þar sem línuvörðurinn flaggaði að boltinn væri kominn inn fyrir marklínuna og gott og gilt mark var dæmt!
Fimmta markið var einkar glæsilegt, vanja geysist upp hægri kantinn sólaði varnarmenn fylkis uppað endamörkum og renndi boltanum út á Margréti sem kláraði færið með viðstöðulausu skoti í nærhornið.
Snemma í hálfleiknum meiddist Sif á ökkla og var skipt útaf fyrir Ástu Árna og vonum við að meiðsl hennar séu ekki alvarleg.
Staðan 5-0 í hálfleik og hefði getað verið enn meiri munur á liðunum en við fórum illa með mörg færi, þá sérstaklega eitt þegar hallbera átti frábæra sendingu á Dóru Maríu sem kom boltanum framhjá markverði Fylkis og á Margréti sem skaut því miður yfir á markteig. Þrátt fyrir að vera 5-0 yfir í hálfleik var margt sem mátti bæta og laga.
Í hálfleik var Rakeli og Guðný skipt útaf fyrir Thelmu og Lindu.
Það mátti halda að annað lið hafi komið inná í seinni hálfleik en við komumst einhvern vegin aldrei í takt við leikinn aftur, allavega ekki til að byrja með. Fylkir skoraði næsta mark leiksins og var það eftir smá klúður hjá okkur en Anna Björg nýr landsliðsmaður Íslendinga komst ein inn fyrir og klobbaði grænklæddan markvörð Vals.
Margrét Lára og Dóra María bjuggu síðan til gott færi fyrir Vönju sem skoraði sjötta mark okkar. Stuttu síðar átti Dóra María fyrirgjöf frá hægri til Margrétar sem átti skot sem markvörður Fylkis varði vel en boltinn datt til Bjargar sem þrumaði boltanum í netið og staðan orðin 7-1. Síðasta mark leiksins var frábært frá upphafi til enda, Gugga greip boltann og kastaði útá Dóru Maríu sem tók strax þríhyrning við Margréti og beint í fyrirgjöf á Vönju sem skallaði boltann í nærhornið!
8-1 sigur í höfn en ljóst er að liðið getur samt spilað miklu betur og þá sérstaklega í seinni hálfleiknum. Dóra María lífgaði rosalega mikið uppá sóknarleikinn og lagði upp mikið af mörkum og færum og ljóst er að það er mjög mikilvægt að fá hana tilbaka í sumar frá USA. Kata vann bókstaflega alla skallabolta nánast hvar sem er á vellinum í fyrri hálfleik og var mjög dominerandi á miðjunni. Í seinni hálfleik misstum við svolítið miðjuna og það þurfum við að laga. Marco með þrennu í gær og stendur alltaf fyrir sínu. Vörnin var heilt yfir ágæt þar sem Fylkir náði ekki að skapa sér mikið af færum fyrir utan markið þeirra.

Liðið: Gugga, Sif (Ásta), Pála (Anna), Fríða (Sara), Guðný (Linda), Rakel, (Thelma) Kata, Dóra María, Hallbera (Björg), Vanja og Margrét Lára

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Go to ImageShack® to Create your own Slideshow