miðvikudagur, júlí 05, 2006
5-1 sigur í Garðabænum!
Í gær sigruðum við stjörnuna með fimm mörkum gegn einu á gervigrasinu í Garðabæ. Fyrsta mark leiksins kom strax á 8.mínútu eftir langa sendingu frá Fríðu þar sem Margrét náði boltanum á undan Söndru markverði Stjörnuliðsins, lyfti boltanum yfir hana og skoraði örugglega 1-0. Stjörnustúlkur náðu síðan að jafna leikinn á 23.mínútu eftir nokkurn klaufagang af okkar hálfu og var þar að verki Inga Birna Friðjónsdóttir.
Á 33.mínútu fengum við aukaspyrnu á vinstri kanti og Margrét Lára gerði sér lítið fyrir og skoraði glæsilega og kom okkur í 2-1. Kata náði síðan að bæta þriðja markinu við á 40.mínútu en hún lyfti boltanum skemmtilega yfir markvörð stjörnunnar. Staðan var 3-1 í hálfleik en við spiluðum með vindi í fyrri hálfleik.
Í seinni hálfleik var komið þónokkuð meira rok en við spiluðum gegn vindinum í seinni hálfleik en það virtist ekki hrjá okkur mikið og fjórða mark leiksins kom á 51.mínútu þegar Guðný okkar Óðinsdóttir skoraði með skoti utan teigs. Hallbera kom inná á 54.mínútu og var búin að vera í fjórar mínútur inná vellinum þegar hún hirti boltann af tánum af varnarmanni stjörnunnar og skoraði fimmta og síðasta mark okkar 5-1.
Flottur liðssigur og náðum við oft á tíðum upp mjög góðu spili þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður í gær en það var rok og rigning stóran hluta leiks.
Margrét Lára átti frábæran leik en hún var sívinnandi og skoraði 2 góð mörk, Hallbera átti frábæra innkomu, skoraði eitt mark og skapaði auk þess fullt af færum. Annars er erfitt að nefna ákveðna leikmenn þar sem liðið í heild stóð sig vel og var ekki að láta aðstæður fara í taugarnar á sér eins og oft vill verða.
Það voru ekki margir áhorfendur á þessum leik og finnst mér illskiljanlegt að KSI hafi sett leik á sama tíma og undanúrslit voru í HM, en ég vil þó koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem mættu á leikinn og studdu okkur!
Liðið: Gugga, Pála (Rut), Fríða, Ásta, Guðný, Kata, Viola, Thelma (Hallbera) Rakel (Sara), Dóra María og Margrét.
Comments:
Skrifa ummæli